Norðurlöndin, þar á meðal Ísland, og Mið-Ameríkulönd eru í efstu sætum á lista sem bandarískir vísindamenn hafa tekið saman um það hvernig lönd standa sig í sjálfbærri þróun. Er m.a. tekið mið af hvernig löndum tekst að halda loft- og vatnsmengun niðri og vinna með öðrum ríkjum að lausn umhverfisvandamála.
Sagt er frá listanum í New York Times í dag en að honum unnu vísindamenn frá Yale- og Columbiaháskólum í samvinnu við stofnunina World Economic Forum. Þar eru Finnland, Noregur og Úrúgvæ í þremur efstu sætunum. Síðan koma Svíþjóð, Ísland, Kanada, Sviss, Guyana, Argentína og Ástralía. Í neðsta sæti var Norður-Kórea en aðrar þjóðir, neðarlega á listanum, voru Haítí, Taívan, Írak og Kúveit.
Þetta er í annað skipti sem listi af þessu tagi er tekinn saman. Það var fyrst gert árið 2002 og vakti þá talsverða athygli.
Vísindamennirnir taka mið af 75 atriðum, svo sem því hve mörg börn deyja úr öndunarfærasjúkdómum, fólksfjölgun, gæðum vatns, ofveiði, losun gróðurhúsalofttegunda og brennisteinstvíildi sem á þátt í svonefndu súru regni.
Skýrslan verður væntanlega til umræðu þegar World Economic Forum kemur saman í Davos í Sviss dagana 26.-30. janúar.