Hálfs árs fangelsi fyrir akstursbrot er leiddi til dauða þriggja farþega

Tæp­lega þrítug­ur karl­maður var dæmd­ur í hálfs árs fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un fyr­ir um­ferðarlaga­brot og jafn­framt var hann svipt­ur öku­rétt­ind­um í fjög­ur ár. Var hann ökumaður bif­reiðar en þrír farþegar hans biðu bana er bif­reiðin skall á ann­arri á Nesja­valla­vegi fyr­ir rétt rúmu ári.

Mann­in­um var gefið að sök að hafa í októ­ber­lok í fyrra ekið bif­reið sinni að beygju og vega­mót­um á Nesja­valla­vegi án nægj­an­legr­ar til­lits­semi og varúðar, of hratt miðað við aðstæður og al­menn hraðamörk og án þess að taka sér­stakt til­lit til ör­ygg­is annarra, með þeim af­leiðing­um að hann missti stjórn á bif­reiðinni. Lenti hún yfir á ak­rein fyr­ir um­ferð úr gagn­stæðri átt, rakst þar á bif­reið þannig að þær lentu báðar út fyr­ir veg og all­ir þrír farþeg­arn­ir í bif­reið ákærða hlutu svo mikla áverka að þeir biðu bana af.

Maður­inn hlaut í vor tveggja ára fang­elsi fyr­ir skjalafals og fjár­svik og var refs­ing­in fyr­ir brotið, sem hann var dæmd­ur fyr­ir í morg­un, ákveðið sem hegn­ing­ar­auki við þann dóm.

Dóm­ara þótti að akst­ur ákærða hafi verið mjög víta­verður og þótti hon­um af þeim sök­um hæfi­legt að svipta hann öku­rétti í fjög­ur ár frá og með deg­in­um í dag.

Er ökumaður­inn kom á slysa­deild hafði hann á sér fimm e-töfl­ur og 1,86 gramm af hassi. Af þeim sök­um var hann og ákærður fyr­ir fíkni­efna­laga­brot. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að hann hafi átt fíkni­efnið og eng­in sönn­un­ar­færsla fór fram fyr­ir dómi um það atriði og var hann því sýknaður af þeirri ákæru. Hann var dæmd­ur til að borga all­an sak­ar­kostnað, þar með tal­inn 150.000 krón­ur í mál­svarn­ar­laun skipaðs verj­anda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert