15 mánaða fangelsi fyrir að aka á tvo pilta í Mosfellsbæ

Rétt rúmlega tvítugur maður var dæmdur í 15 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að aka á tvo unglinga í Mosfellsbæ í fyrravor en hann var undir áhrifum áfengis.

Maðurinn ók bifreið undir áhrifum áfengis frá bifreiðastæði við íþróttahús Varmárskóla í Mosfellsbæ eftir göngustíg í nágrenni hússins en þar urðu tveir ungir menn á vegi hans. Eftir að hafa ekið á þá ók hann bifreiðinni að heimili sínu.

Við ákeyrsluna slitnaði krossband í hné annars piltsins og liðþófi skaddaðist, en hinn tognaði í baki. Með háttsemi sinni þótti maðurinn hafa stofnað lífi eða heilsu þeirra á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska.

Með brotinu rauf maðurinn skilorð sex mánaða fangelsisdóms og var sá dómur tekinn upp og metinn sem hegningarauki við umferðarlagabrot mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert