Fjöldi óhappa á Hellisheiði rakin til hálku

Tíu til tólf bílar lentu í árekstrum eða utan vegar á u.þ.b. fimmtán mínútna tímabili í dag þegar skyndilega myndaðist mikil hálka á Hellisheiði. Lögreglunni fóru að berast tilkynningar um óhöpp á heiðinni kl. 16.40. Tilkynnt var um meiðsl á fólki í einum árekstri en þau eru talin minniháttar. Tveir lögreglubílar eru á heiðinni auk sjúkrabíls. Þá var sendur bíll frá Lögreglunni í Reykjavík til aðstoðar.

Eignatjón varð á ellefu bílum í umferðaróhöppum í og fyrir neðan Hveradalabrekku. Þrjá bíla varð að draga af vettvangi með dráttarbíl. Aðgerðum á vettvangi lauk kl. 18:40. Vegagerðin var kölluð til og gerði hún ráðstafanir vegna hálkunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert