Segir frásögn Davíðs ranga

Hreinn Loftsson.
Hreinn Loftsson.

Ríkisútvarpið hafði eftir Hreini Loftssyni stjórnarformanni Baugs Group að frásögn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra af fundi þeirra í Lundúnum í janúar á síðasta ári, sé fráleit. Jón Ásgeir Jóhannesson hafi látið orð, um að greiða Davíð 300 milljónir króna, falla við sig í hálfkæringi og engum heilvita manni myndi detta í hug að bera fé á Davíð Oddsson. Þá staðfesti Hreinn við Ríkisútvarpið að hann hafi fyrst heyrt um Jón Gerald Sullenberger á fundinum með Davíð.

Hreinn sagði við útvarpið að hann hefði sagt Davíð frá því að ýmsar sögur væru sagðar í samfélaginu og ýmsar ljótar. Jón Ásgeir hefði sagt í hálfkæringi á fundi með sér, að réttast væri að greiða forsætisráðherra 300 milljónir eins og sagt væri að Kári Stefánsson hefði gert. Sagði Hreinn að hann hefði tekið þetta sem dæmi um söguburðinn í þjóðfélaginu og að ekki væri hægt að trúa öllu því sem þar væri sagt. Sagðist Hreinn hafa farið yfir þetta með Davíð áður en Davíð fór í viðtal í Ríkisútvarpinu í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert