Sambúð hækkar laun kvenna um 20% en tvöfaldar laun karla

Karlar í sambúð hafa tvöfalt hærri tekjur en þeir sem ekki eru í sambúð eða 3,3 milljónir króna í árstekjur á móti 1,7 milljónum króna, að því er kemur fram í erindi sem Ingólfur V. Gíslason, starfsmaður Jafnréttisskrifstofu, flutti á Grand Hóteli í hádeginu. Ráðstefnan í dag var haldin í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna sem er á morgun, 8. mars.

Þó svo að kona fari í sambúð er ekki jafnlíklegt að tekjur hennar hækki líkt. Í erindi Ingólfs kemur fram að árið 2000 hafi meðaltekjur kvenna sem ekki voru í sambúð verið 1,3 milljónir króna á ári en kvenna í sambúð 1,5 milljónir króna eða um 20% hærri. Því er ljóst að karlar sem ekki eru í sambúð eru með hærri tekjur en konur í sambúð og er munurinn um 12%.

Í þeim gögnum sem Ingólfur hefur aflað sér kemur fram að hlutfall launatekna kvenna af tekjum karla hefur aukist um rúm tíu prósentustig milli áranna 1981 og 2000 eða úr því að vera 46,6% af tekjum karla í það að vera 57,2%. Í þessum tölum er þó ekki tekið tillit til neinna þátta annarra en framtalinna atvinnutekna. Ekki er litið til menntunar, vinnutíma eða starfsvettvangs.

Þegar litið er til heildartekna kynjanna, þ.e. að viðbættum öðrum tekjum en launatekjum, s.s. fjármagnstekjum, lífeyrisgreiðslum og bótagreiðslum, höfðu konur 52,3% af heildartekjum karla árið 1990. Árið 2001 höfðu konur 61,6% af heildartekjum karla.

Þegar launaþróunin er tengd vinnutíma sést að árið 1991 voru laun kvenna 73,9% af launum karla að teknu tilliti til vinnutíma en árið 2001 var hlutfallið 79,4%.

Launaþróun tengd aldri sýnir að kynbundinn launamunur er minnstur hjá fólki undir tvítugu þar sem stúlkur hafa 74,3% af launum stráka. Konur á aldrinum 36-40 ára hafa einungis 49,5% af launum karla en konur á aldrinum 46-50 ára 55%.

8. mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert