Lá sofandi í bílskúrsglugganum

Þegar öryggisverðir Öryggismiðstöðvar Íslands svöruðu útkalli í austurbæ Reykjavíkur um helgina komu þeir að manni sem hékk hálfur út um bílskúrsgluggann og var steinsofandi.

Maðurinn hafði verið að skemmta sér í húsi rétt hjá fyrr um nóttina og farið húsavillt þegar hann ætlaði að snúa aftur. Hann ákvað að skríða inn um glugga en sofnaði á miðri leið, og svaf hinn rólegasti þar til öryggisvörðurinn kom á staðinn.

Lögreglan var kölluð til og tók skýrslu af manninum sem síðan var sóttur af ættingja og fluttur í betra ból.

Þessa vikuna sinntu öryggisverðir Öryggismiðstöðvar Íslands 128 útköllum og segir fyrirtækið að leita þurfi aftur á mitt síðasta ár til að finna rólegri viku hvað útkallsfjölda varði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert