Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra opnaði í gær formlega nýja Sorporkustöð á Kirkjubæjarklaustri við fjölmenna athöfn sem Árni Jón Elíasson oddviti setti en Guðsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri stýrði. Með tilkomu nýrrar og afkastameiri sorpbrennsluvélar er gert ráð fyrir að hægt verði að eyða öllu brennanlegu sorpi, sem til fellur í sveitarfélaginu og e.t.v. eitthvað umfram það.
Í þéttbýlinu á Kirkjubæjarklaustri er sorp sótt vikulega og tekið við lífrænu sorpi hjá þeim, sem ekki jarðgera það sjálfir, og það jarðgert miðlægt. Nýlega var farið að sækja brennanlegt sorp úr öllu sveitarfélaginu og er það gert á fjögurra vikna fresti. Lífrænu sorpi er ekki safnað í dreifbýlinu vegna þess hve byggðin er dreifð og vegalengdir miklar.
Nýja sorpbrennslustöðin hitar vatn í 40 þúsund lítra miðlunargeymi. Frá geyminum er vatnið síðan leitt inn á hitakerfi skóla og sundlaugar. Hafin er bygging íþróttahúss sem einnig mun nýta varmann frá sorporkustöðinni til upphitunar. Skaftárhreppur fékk styrki vegna verkefnisins frá Byggðastofnun og Orkusjóði.