Unglingar keppa í kassaklifri

mbl.is/Ólafía Herborg

Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Bandalag íslenskra skáta stóð í samvinnu við deildir á Austurlandi fyrir keppni í kassaklifri íþróttahúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Íþróttin snýst um að hangið er utan á turni af ölkössum og sífellt bætt kössum á stæðuna til að komast sem hæst. Undanúrslit eru í fimm landshlutum en munu sigurvegararnir keppa til úrslita 12. apríl í Smáralind í Kópavogi. Keppnin er fyrir 13-18 ára ungmenni.

Úrslit á Egilsstöðum voru sem hér segir:

Halldóra Auður Jónsdóttir frá Norðfirði í flokki stelpna 13-15 ára,
Heimir Ingibergsson frá Höfn í Hornafirði í flokki stráka 13-15 ára,
Auður Jóna Skúladóttir frá Norðfirði í flokki stelpna 16-18 ára
Guðbergur Már Skúlason frá Reyðarfirði í flokki stráka 16-18 ára.

Hafa þau þar með unnið rétt til að keppa fyrir hönd Austurlands í úrslitakeppninni. Hæsti turninn var 25 kassar en lofthæð íþróttahússins leyfði ekki meiri kassafjölda. Annars hefðu þátttakendur eflaust gert atlögu að meti Ísfirðinga sem var 37 kassar en Íslandsmetið er 38 kassar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert