Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Bandalag íslenskra skáta stóð í samvinnu við deildir á Austurlandi fyrir keppni í kassaklifri íþróttahúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Íþróttin snýst um að hangið er utan á turni af ölkössum og sífellt bætt kössum á stæðuna til að komast sem hæst. Undanúrslit eru í fimm landshlutum en munu sigurvegararnir keppa til úrslita 12. apríl í Smáralind í Kópavogi. Keppnin er fyrir 13-18 ára ungmenni.
Úrslit á Egilsstöðum voru sem hér segir:
Halldóra Auður Jónsdóttir frá Norðfirði í flokki stelpna 13-15 ára,
Heimir Ingibergsson frá Höfn í Hornafirði í flokki stráka 13-15 ára,
Auður Jóna Skúladóttir frá Norðfirði í flokki stelpna 16-18 ára
Guðbergur Már Skúlason frá Reyðarfirði í flokki stráka 16-18 ára.
Hafa þau þar með unnið rétt til að keppa fyrir hönd Austurlands í úrslitakeppninni. Hæsti turninn var 25 kassar en lofthæð íþróttahússins leyfði ekki meiri kassafjölda. Annars hefðu þátttakendur eflaust gert atlögu að meti Ísfirðinga sem var 37 kassar en Íslandsmetið er 38 kassar.