Lögreglan í Reykjavík og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins eru þessa stundina að veiða þrjá bíla upp úr ánni Bugðu á Norðlingaholti en ríðandi maður kom auga á bílana í ánni á ellefta tímanum í morgun og tilkynnti um það til lögreglu.
Tilkynnt hafði verið um stuld til lögreglu á tveimur bifreiðanna og er verið að kanna hvort sú þriðja sé einnig stolin. Talið er að a.m.k. tveimur þeirra hafi verið ekið út í ána í nótt. Um er að ræða tvær bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz og sú þriðja er af gerðinni Saab.
Í einni bifreiðanna reyndist vera fullt af verðmætum rafmagnsverkfærum. Að sögn varðstjórans stendur til að kanna hvort fleiri bifreiðar kunni að leynast í Bugðu. Af bifreiðunum þremur voru tvær á bólakafi í ánni. Ein þeirra virðist hafa rekið niður eftir ánni því hún reyndist rispuð á toppnum. Allar voru þær með topplúgu og voru þær opnar. Bifreiðarnar eru allar komnar til ára sinna.