Bílar finnast á kafi í Bugðu

Einn bílanna þriggja í Bugðu.
Einn bílanna þriggja í Bugðu. mbl.is/Halldór Kolbeins

Lög­regl­an í Reykja­vík og slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins eru þessa stund­ina að veiða þrjá bíla upp úr ánni Bugðu á Norðlinga­holti en ríðandi maður kom auga á bíl­ana í ánni á ell­efta tím­an­um í morg­un og til­kynnti um það til lög­reglu.

Til­kynnt hafði verið um stuld til lög­reglu á tveim­ur bif­reiðanna og er verið að kanna hvort sú þriðja sé einnig stol­in. Talið er að a.m.k. tveim­ur þeirra hafi verið ekið út í ána í nótt. Um er að ræða tvær bif­reiðar af gerðinni Mercedes Benz og sú þriðja er af gerðinni Saab.

Í einni bif­reiðanna reynd­ist vera fullt af verðmæt­um raf­magns­verk­fær­um. Að sögn varðstjór­ans stend­ur til að kanna hvort fleiri bif­reiðar kunni að leyn­ast í Bugðu. Af bif­reiðunum þrem­ur voru tvær á bólakafi í ánni. Ein þeirra virðist hafa rekið niður eft­ir ánni því hún reynd­ist rispuð á toppn­um. All­ar voru þær með topp­lúgu og voru þær opn­ar. Bif­reiðarn­ar eru all­ar komn­ar til ára sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert