„Þetta var eina áttin sem ég gat stefnt í án þess að lenda á öðrum bílum. Stórslys hefði verið óumflýjanlegt ef ég hefði ekki beygt frá,“ segir Ólafur Guðmundsson bílstjóri sandflutningabílsins sem steyptist fram af kanti á Reykjanesbrautinni á miðvikudag og lenti ofan í aðgönguleið undirganga við Reykjanesbraut. Ólafur var að aka norður eftir Reykjanesbrautinni þegar fólksbíll úr gagnstæðri átt beygði í veg fyrir hann. Sá Ólafur engan annan kost í stöðunni en að beygja ósjálfrátt frá, þótt hann vissi að það gæti hæglega kostað hann lífið. Á flutningabílnum var 40 tonna hlass og útilokað að stöðva svo þungan bíl fyrirvaralaust. Er Ólafur ekki í vafa um að margfalt banaslys hefði hlotist af ef hann hefði ekki beygt frá. Alls staðar voru bílar í kring og eina ráðið var að fara út af. Steyptist bíllinn niður af kantinum með þeim afleiðingum að stýrishúsið gekk saman og Ólafur grófst hálfur undir sandi sem rann inn í stýrishúsið. Atvikið varð á gatnamótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu í Hafnarfirði. Hann segist hafa gert sér grein fyrir því að ákvörðun sín gæti orðið sér dýrkeypt, þar sem hann vissi hvað væri handan við kantinn. Sem betur fór rann hann í átt að farþegadyrunum þegar bíllinn lenti á nefinu og komst þannig hjá því að kremjast til bana við stýrið.
Hann segir röð tilviljana hafa ráðið því að ekki fór verr í þessu tilviki. Þannig hafi það verið einstakt lán að ekki var gangandi vegfarandi við undirgöngin þegar bíllinn lenti þar fyrirvaralaust. Tilviljun réð því líka að Ólafur var að aka með sandhlass í þetta skiptið en ekki svokallað bögglaberg, hnullunga, sem hefði valdið því að tengivagninn hefði rifnað frá bílnum og lent á honum með enn verri afleiðingum. "Þetta fór eins vel og hægt var, fyrst þetta þurfti á annað borð að gerast," segir hann.
Ólafur vildi koma á framfæri þökkum til starfsfólks Landspítalans fyrir frábæra umönnum svo og allra þeirra sem unnu að björgun hans á vettvangi.