Merkingar á flugvélinni TF-FTL sem hnekktist á í lendingu á Stykkishólmsflugvelli á föstudag voru fjarlægðar áður en ljósmyndari Morgunblaðsins myndaði vélina á slysstað. Myndin birtist í laugardagsblaðinu.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands, segir að vélin, sem er kennsluflugvél Flugskóla Íslands, hafi verið merkt Flugfélaginu í auglýsingaskyni. Hins vegar hafi í kjölfar flugslyssins í Hvalfirði þar sem önnur kennsluvél lenti í vandræðum verið ákveðið að láta taka merkingarnar af TF-FTL. Flugskóli Íslands hafði hins vegar ekki enn sinnt þeirri beiðni og því var vélin enn merkt Flugfélagi Íslands þegar hún brotlenti á Stykkishólmsflugvelli. Merkingarnar voru hins vegar fjarlægðar, breitt yfir stél vélarinnar og límmerkingar teknar af skrokknum, eftir að rannsóknarnefnd flugslysa hafði athafnað sig á vettvangi slyssins á föstudag.
Jón Karl segir að þegar fréttir af óhappi vélarinnar bárust hafi þess verið óskað að merkingarnar yrðu teknar af þegar í stað. "Við hringdum í þá og báðum þá um það, einmitt til þess að það væri ekki hægt að tengja vélina við okkur, vélin kemur okkur í raun ekkert við. En það var ekkert verið að fela."
Kennsluvélar Flugskóla Íslands eru einnig merktar öðrum íslenskum flugfélögum.