Merki Flugfélags Íslands fjarlægt af flugvél eftir brotlendingu

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason

Merkingar á flugvélinni TF-FTL sem hnekktist á í lendingu á Stykkishólmsflugvelli á föstudag voru fjarlægðar áður en ljósmyndari Morgunblaðsins myndaði vélina á slysstað. Myndin birtist í laugardagsblaðinu.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands, segir að vélin, sem er kennsluflugvél Flugskóla Íslands, hafi verið merkt Flugfélaginu í auglýsingaskyni. Hins vegar hafi í kjölfar flugslyssins í Hvalfirði þar sem önnur kennsluvél lenti í vandræðum verið ákveðið að láta taka merkingarnar af TF-FTL. Flugskóli Íslands hafði hins vegar ekki enn sinnt þeirri beiðni og því var vélin enn merkt Flugfélagi Íslands þegar hún brotlenti á Stykkishólmsflugvelli. Merkingarnar voru hins vegar fjarlægðar, breitt yfir stél vélarinnar og límmerkingar teknar af skrokknum, eftir að rannsóknarnefnd flugslysa hafði athafnað sig á vettvangi slyssins á föstudag.

Var merkt í auglýsingaskyni

"Málið er að Flugskóli Íslands sóttist eftir því við okkur að fá auglýsingastyrk sem fólst í því að merkja flugvélarnar þeirra," útskýrir Jón Karl og segir eina vél hafa verið merkta félaginu. "Síðan vorum við komnir með bakþanka. Þarna er að fljúga fólk með litla reynslu og svona getur alltaf komið fyrir. Við vorum búnir að biðja þá [hjá Flugskóla Íslands] að taka merkin af vélinni en sögðum að við myndum styrkja þá áfram. Þeir voru bara ekki búnir að ganga frá þessu."

Jón Karl segir að þegar fréttir af óhappi vélarinnar bárust hafi þess verið óskað að merkingarnar yrðu teknar af þegar í stað. "Við hringdum í þá og báðum þá um það, einmitt til þess að það væri ekki hægt að tengja vélina við okkur, vélin kemur okkur í raun ekkert við. En það var ekkert verið að fela."

Kennsluvélar Flugskóla Íslands eru einnig merktar öðrum íslenskum flugfélögum.

mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert