Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að 15. september 2004 taki Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra við embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisfloks og Framsóknarflokks sem verið er að mynda. Jafnframt komi utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið í hlut Sjálfstæðisflokksins til viðbótar þeim ráðuneytum sem flokkurinn ræður nú. Davíð segir að að það komi til greina að hann taki að sér annað hvort fjármálaráðuneytið eða utanríkisráðuneytið en hann segist ekki gera ráð fyrir öðru en að sitja áfram í ríkisstjórn.
Davíð sagði við fréttamenn eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins, að það lægju fyrst og fremst sanngirnisrök fyrir því að hafa þennan hátt á skiptingu ráðuneyta. „Flokkarnir hafa starfað saman mjög vel í átta ár og eru að leggja á djúpið fyrir önnur fjögur. Það er ljóst að formaður Framsóknarflokksins hefur verið ráðherra i 16 ár með miklum ágætum, starfað í mörgum ráðuneytum, og hefur víðtæka reynslu. Okkur finnst sanngirnisrök mæla með því, í svona löngu samstarfi, þar sem trúnaður ríkir, að formaður hins stjórnarflokksins fái einnig notið æðsta trúnaðar í samstarfinu eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur notið með stuðningi Framsóknarflokksins," sagði Davíð.
Halldór Ásgrímsson sagði eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins, að að hann muni sem forsætisráðherra fyrst og fremst fylgja þeim áherslum sem eru í nýjum stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að verja stöðugleikanna, byggja upp íslenskt atvinnulíf og velferðarkerfi.
Fram kom hjá bæði Halldóri og Davíð að þingflokkarnir hefðu verið sáttir við stjórnarsáttmálann sem kynntur var á fundum þeirra í dag.