Tveir nýir ráðherrar taka við

Björn Bjarnason tekur við lyklum að dómsmálaráðuneytinu úr höndum Sólveigar …
Björn Bjarnason tekur við lyklum að dómsmálaráðuneytinu úr höndum Sólveigar Pétursdóttur. mbl.is/Sverrir

Tveir nýir ráðherrar tóku í dag við lyklavöldum að ráðuneytum sínum úr hendir fráfarandi ráðherra. Þetta voru Björn Bjarnason, sem tók í dag við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra af Sólveigu Pétursdóttur, og Árni Magnússon, sem tók við embætti félagsmálaráðherra af Páli Péturssyni. Fyrr í dag kom ný ríkisstjórn saman til ríkisráðsfundar á Bessastöðum og er það fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar.

Ríkistjórnin er þannig skipuð:

Davíð Oddsson fer með forsætisráðuneytið og Hagstofu Íslands
Halldór Ásgrímsson fer með utanríkisráðuneytið
Árni Magnússon fer með félagsmálaráðuneytið
Árni M. Mathiesen fer með sjávarútvegsráðuneytið
Björn Bjarnason fer með dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Geir Hilmar Haarde fer með fjármálaráðuneytið
Guðni Ágústsson fer með landbúnaðarráðuneytið
Jón Kristjánsson fer með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
Siv Friðleifsdóttir fer með umhverfisráðuneytið
Sturla Böðvarsson fer með samgönguráðuneytið
Tómas Ingi Olrich fer með menntamálaráðuneytið
Valgerður Sverrisdóttir fer með iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið.

Alþingi verður sett á mánudag og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur predikar og þjónar fyrir altari ásamt Karli Sigurbjörnssyni biskup Íslands. Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, þingmenn og aðrir gestir til þinghússins þar sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands setur þingið og að því loknu tekur starfsaldursforseti Alþingis, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, við fundarstjórn og gengst fyrir kosningu kjörbréfanefndar samkvæmt þingsköpum. Þingsetningarfundi verður síðan frestað þar til síðdegis meðan kjörbréf eru rannsökuð.

Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verða kjörbréf afgreidd, kosinn forseti Alþingis og varaforsetar og kosið í fastanefndir Alþingis og alþjóðanefndir. Að síðustu verður hlutað um sæti þingmanna, annarra en ráðherra og forseta Alþingis.

Árni Magnússon tekur við lyklum að félagsmálaráðuneytinu úr hendi Páls …
Árni Magnússon tekur við lyklum að félagsmálaráðuneytinu úr hendi Páls Péturssonar. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert