Hjólreiðamenn rákust saman á Akureyri

Hópur hjólreiðafólks var á miðvikudag að hjóla suður Drottningarbraut á Akureyri og varð þá það óhapp að tveir hjólreiðamenn rákust saman og féll annar í götuna. Kenndi hann eymsla í öxl og var fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Sprunga kom í hjálm hjólreiðamannsins. Segir lögregla að hann hafi örugglega bjargað því að ekki fór verr.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Akureyri. Segir þar að vikan hafi verið róleg og tíðindalítil. Fimmtán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og settir voru boðunarmiðar á tuttugu bifreiðar sem ekki höfðu verið færðar til lögbundinnar skoðunar. Þá var fjöldi ökumanna áminntur fyrir að vera enn á negldum hjólbörðum og segir lögreglan að þeim sem enn eru á nagladekkjum verði engin grið gefin úr þessu enda komið sumar.

Átta umferðaróhöpp urðu í vikunni, öll minniháttar. Á mánudag varð árekstur í Kaupvangsstræti með þeim hætti að strætisvagni var ekið vestur, upp Kaupvangsgilið, og beygt til vinstri suður Eyrarlandsveg. Fólksbifreið sem var ekið austur, niður gilið, lenti á afturenda strætisvagnsins og skemmdist talsvert við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert