Allir jafnréttissinnar klæðist bleiku

Íslenskir femínistar hafa gert bleika litinn, einkum skærbleika, að sínum.
Íslenskir femínistar hafa gert bleika litinn, einkum skærbleika, að sínum. mbl.is/Árni Torfason

Áttatíu og átta ár eru á morgun liðin frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi. Að því tilefni hvetur Femínistafélag Íslands alla þá sem eru jafnréttissinnaðir og vilja þrýsta á um jafnan rétt kynjanna, til að klæðast bleiku eða bera eitthvað bleikt þennan dag. „Hér gildir einu hvort um ræðir bol, skó, sokka, hárborða, naglalakk, bindi, blóm í hári eða eitthvað allt annað; bara á meðan það er bleikt,“ segir í tilkynningu félagsins. Þá munu ráðamönnum þjóðarinnar verða afhentir bleikir steinar til að hvetja þá til að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku.

Þá eru verslanir einnig hvattar til að stilla út bleiku eða bjóða bleikar vörur á tilboði. Nokkur félög munu á morgun standa að átakinu „Málum bæinn bleikan“ en þau eru: Femínistafélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennakirkjan, Bríet, tímaritið Vera, Bandalag kvenna í Reykjavík, Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum og Kvennasögusafn Íslands.

Aðrir atburðir 19. júní:

Kl. 16:30 Ganga um kvennaslóðir (Kvennasögusafnið og KRFÍ) Gangan leggur á stað frá Ráðhúsinu.
Kl. 17:15 Kaffi og dagskrá á Hallveigarstöðum (Kvenréttindafélagið, Bandalag kvenna í Reykjavík og Kvenfélagasamband Íslands)
Kl. 20:30 Messa við þvottalaugarnar í Laugardal (Kvennakirkjan, KRFÍ og Kvenfélagasamband Íslands)
Kl. 21:30 verður samkoma á Prikinu, bleikir drykkir fást á barnum, Dj Páll Óskar spilar sögu popp-kvenna.

„Ný stjórnarskrá fyrir Ísland staðfest af konungi þann 19. júní 1915. Þar með fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Aldurstakmarkið skyldi lækka um eitt ár næstu fimmtán árin þar til 25 ára aldri væri náð, en það var aldurstakmark kosningabærra karlmanna. Þetta ákvæði var fellt úr gildi árið 1920. Eftir það hafa konur og karlar notið sama réttar við kosningar til Alþingis. Síðan hafa samtök kvenna minnst dagsins. Var bygging Landspítalans helsta baráttumál dagsins til um 1930. Kvenréttindafélag Íslands hefur verið aflvaki hátíðahalda, mannfagnaða og útgáfu blaðsins 19. júní í tilefni dagsins frá upphafi sjötta áratugarins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert