Rangárnar eru það heitasta í laxveiðinni þessa dagana þótt einstakar ár, eins og Haffjarðará og Laxá í Kjós, séu einnig að gera það afar gott. Í Eystri Rangá hafa fengist upp í 70 laxar á dag að undanförnu og dagveiðin í ánni hefur varla farið undir 50 á þessum tíma. Ytri Rangá er einnig afar drjúg, en veiðin í henni er yfirleitt 30 til 40 laxar á dag.
Það hefur verið stígandi í veiðinni og að sögn Stefáns Sigurðssonar hjá Lax-á, sem hefur árnar á leigu, bíða menn spenntir næstu daga. "Það eru ekki enn komnir hundrað laxa dagarnir sem eystri áin er fræg fyrir, en stígandinn í veiðinni og vaxandi straumur veldur spennu fyrir austan, menn eru að vona að næstu dagar verði glæsilegir," sagði Stefán. Tölurnar breytast hratt í Rangánum núna og sagði Stefán að við samanburð á veiðibókum sé t.d. Ytri Rangá aðeins á eftir miðað við sumarið 2001, er frábær veiði var í ánum báðum, "hún gefur svipaða dagveiði nú og þá, en veiðin fór betur af stað það sumar, þess vegna er talan aðeins lægri í sumar," sagði Stefán.