Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar og formaður samgöngunefndar, setti Evrópska samgönguviku 2003 í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra flutti ávarp og opnaði nýjan vef um mengunarmælingar. Reykjavíkurborg tekur þátt í Evrópsku samgönguvikunni í fyrsta sinn í ár og er því meðal þeirra rúmlega 250 borga víðsvegar í Evrópu sem taka þátt í verkefninu. Meginþema vikunnar að þessu sinni er „aðgengi fyrir alla“ í tengslum við Evrópuár fatlaðra.
Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, að markmið Evrópskar samgönguviku sé að vekja almenning til umhugsunar um umferðarmenningu í víðasta skilningi. Einnig sé lögð áhersla á mikilvægi þess að skapa betra aðgengi, meðal annars fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðafólk og fatlaða. Tilgangurinn sé að kynna stefnu og verkefni sem unnið er að í höfuðborginni, að stuðla að aukinni vitund borgarbúa um nauðsyn þess að minnka mengun af völdum umferðar, að hlúa að samstarfi við atvinnulífið og félagasamtök og að leggja áherslu á almenningssamgöngur í borginni.
Í tilefni Evrópsku samgönguvikunnar efnir Reykjavíkurborg til margvíslegra viðburða, en hver dagur er helgaður tilteknu málefni sem tengist umferðarmenningu. Þriðjudagurinn 16. september er tileinkaður minni mengun í umferðinni, miðvikudagurinn 17. september er hjólreiðadagur, fimmtudagurinn 18. september er tileinkaður aðgengi fatlaðra og föstudagurinn 19. september vistakstri. Laugardagurinn 20. september er sérstakur miðborgardagur og sunnudagurinn 21. september er göngudagur í miðborginni.
Þungamiðja vikunnar er Bíllausi dagurinn sem haldinn verður 22. september undir slagorðinu „Í bæinn án bílsins á virkum degi.“ Reykjavíkurborg tekur nú þátt í bíllausa deginum í þriðja skipti og er því meðal þeirra rúmlega 900 borga og bæja sem eru þátttakendur í ár. Bíllausi dagurinn er haldinn til að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur eða aðra fararskjóta en einkabíl til að draga úr mengun í borginni.