Evrópumet slegið með þátttöku ríflega 100 kvenna í fjöltefli

Sumir þátttakendurnir voru ekki háir í loftinu.
Sumir þátttakendurnir voru ekki háir í loftinu. mbl.is/Jim Smart

Alls tóku 102 konur þátt í fjöltefli sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag og settu þar með Evrópumet hvað varðar þátttöku í kvennafjöltefli. Að sögn Guðfríðar Lilju Grétarsdóttir, alþjóðlegs meistari kvenna í skák og ellefufaldur Íslandsmeistari kvenna, komust færri konur að en vildu sökum plássleysis. „Það þurfti að rjúka út í bæ og ná í fleiri skákborð,“ segir Guðfríður Lilja. Teflt var í gluggakistum og hvar sem færi var á.

„Þetta var stórkostlegt og ógleymanlegt,“ segir hún ennfremur. „Alls kyns konur komu úr öllum áttum og sumar miklu sterkari en maður átti von á. Þannig að það var mjög gaman,“ segir Guðfríður.

Þremur konum tókst að máta kvennasveit Taflfélagsins Hellis og var það þær Bára Baldursdóttir, sagnfræðingur hjá Reykjavíkurakademíunni, Tinna Gunnlaugsdóttir leikkona og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 10 ára sem vann telpurnar tvær. Guðfríður segir að Bára og Tinna séu ekki þekktar í skákheiminum á Íslandi.

Fimm konur skipa kvennasveitina, sem allar eru landsliðskonur í skák, og tvær stúlkur, Hallgerður Helga 10 ára og Elsa María 14 ára. Landsliðið er að fara á Evrópumót skákfélaga og er það í fyrsta skiptið sem íslenskt skákfélag sendir kvennasveit til keppni á alþjóðlegan viðburð, segir Guðfríður Lilja. „Þannig að þetta var eins konar upphitun fyrir okkur,“ segir hún. Stúlkurnar tvær eru að fara á heimsmeistaramót barna- og unglinga í október.

Yfir 50 þjóðþekktum konum var stefnt að skákborðunum í ráðhúsinu og átti Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fyrsta leikinn. Þá voru allar konur hvattar til að taka þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert