Umferðin var marktækt minni í gær á bíllausa deginum svokalla, sem haldinn var í tilefni Evrópskrar samgönguviku 2003. Að sögn Bjargar Helgadóttur, landfræðings hjá Gatnamálastofu Reykjavíkur, dróst umferðin saman um tæp tvö prósent, sem sé marktæk minnkun. Ekki hafi orðið vart við mikinn samdrátt fyrrihluta dags en þegar líða tók á daginn hafi komið fram á teljurum að dregið hafi úr umferðarþunganum. Taldi Björg ekki ósennilegt að áhrifa fjölmiðla hefði farið að gæta er líða tók á daginn er þeir fluttu fréttir af átakinu.
Hörður Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Strætó bs., segir að þeir hjá Strætó hafi orðið merkjanlega varir við aukningu í flutningum, ekki síst seinnipart dags.