Olíufélögin þrjú, sem selja eldsneyti á bifreiðir, Esso, Olís og Skeljungur, hafa öll lækkað verð á bensíni um 3,50 kr. á lítra frá og með deginum í dag. Esso reið á vaðið í gær með því að tilkynna um lækkun hjá sér og síðan tilkynntu Olís og Skeljungur um sína lækkun. Ástæða lækkunarinnar er lækkun á heimsmarkaðsverði olíu. Eftir lækkunina er verð hvers lítra af 95 oktana bensíni kr. 92,60 í sjálfsafgreiðslu hjá olíufélögunum þremur og fullt þjónustuverð þeirra er kr. 96,60 lítrinn.
Á Esso Express stöðvum kostar lítri af 95 oktana bensíni kr. 91,40. Auk þessa veitir Esso sjálfsafgreiðsluafslátt á öðrum stöðvum félagsins. Þá fá Safnkortshafar kr. 1,00 á hvern bensínlítra í formi punkta inn á Safnkort sín.
Verð á ÓB stöðvum á 95 oktana bensíni er kr. 91,40 krónur á lítra. Þá veitir félagið þeim sem greiða með vildarkorti Visa og Flugleiða um það bil 1,50 krónur á lítra í afslátt aukalega í formi vildarpunkta.
Verð á 99 oktana Shell V-Power er eftir verðbreytingu kr. 101,40 lítrinn í sjálfsafgreiðslu en annars kr. 105,40. Handhafar vildarkorta Shell fá viðbótarafslátt í formi punkta sem jafngildir um kr. 1,50 fyrir hvern lítra bensíns sem keyptur er.