Vilja að skólagjöld stelpna verði lækkuð

Í hádeginu munu nokkrir nemendur Verzlunarskóla Íslands afhenda skólastjóra sínum bréf vegna baráttudags kvenna. Með þessu framtaki sínu vilja nemendurnir beina ljósinu að kynjamisrétti í launamálum en þessi umræða hefur ekki oft verið tengd Verzlunarskólanum. Nemendur vilja skora á skólastjórn að lækka skólagjöld stelpna í samræmi við þann launamismun sem þær gætu átt von á í framtíðinni.

Bréf til skólastjóra Verzlunarskólans er svohljóðandi:

„Háttvirti skólastjóri

Í tilefni af áskorun til kvenna um að biðja um launahækkun til að reyna að minnka þann kynjamismun sem er á launum karla og kvenna í dag, þann 24. október, höfum við ákveðið að fara fram á skólagjaldalækkun í samræmi við þann mismun sem verður á launum okkar í framtíðinni. Samkvæmt rannsóknum í dag eigum við eftir að fá að meðaltali 22 % lægri laun en karlkyns samnemendur okkar. Þess vegna förum við fram á skólagjaldalækkun í samræmi við það.

Skólagjöld Verzlunarskólans voru 56.000 kr. fyrir þetta ár. Þar með erum við að krefjast þess að stelpur skólans fái 12.350 kr. endurgreiddar frá skólanum vegna ofgreiddra skólagjalda.

Við viljum vekja athygli á því að af 10 hæstu nemendum á verzlunarprófi í fyrra voru 9 kvenkyns en aðeins einn strákur. Þrátt fyrir lægri einkunnir strákanna er menntun þeirra samt meira virði en okkar.

Sjái hæstvirti skólastjóri ekki fram á að geta orðið við óskum okkar biðjum við hann að leggja okkur lið í baráttunni gegn þessu óréttlæti og vekja athygli á því jafnt innan veggja skólans sem og í fjölmiðlum.

Fyrir hönd þeirra sem vilja ekki líða óréttlæti af neinum toga, Lifi jafnréttið!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka