Sex rússneskir fangar duttu í lukkupottin þegar þeir hlutu sakaruppgjöf eftir að hafa tekið þátt í söngvakeppni fyrir fanga þar í landi í kvöld. Um 800 fangar tóku þátt í sérstakri forkeppninni og 23 náðu í lokakeppnina, sem haldin var í tónlistarhöll í Ólympíuþorpinu í Moskvu. Þátttakendur sungu allir lög sem þeir höfðu samið sjálfir. Tvær konur voru meðal þeirra sem náðu í sex efstu sætin og fengu sakaruppgjöf.
Vinningshafarnir hljóta einnig fjárhagslegan stuðning til þess að koma undir sig fótunum á ný. Aðrir keppendur fengu ýmiss konar verðlaun, þar á meðal litasjónvörp. Dómsmálaráðuneytið í Rússlandi styrkti keppnina. Hlutfall fanga í Rússlandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum, en þar í landi eru 628 fangar á hverja 100 þúsund íbúa.