Ríkisútvarpið neitaði í dag að birta lesna auglýsingu Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, á undan hádegisfréttunum. Auglýsingin hljóðaði svo: „Slökkvum á Ríkisútvarpinu. Heimdallur.“ Fékk Heimdallur þá skýringu frá Ríkisútvarpinu að stofnunin birti ekki ótilhlýðilegan áróður gegn fyrirtækjum, félögum eða einstaklingum.
Atli Rafn Björnsson, formaður Heimdallar, segir að um nokkrar auglýsingar hafi verið að ræða en Heimdallur hafi undirbúið svokallaða RÚV-viku þar sem athygli sé vakin á því að ríkið stundi rekstur útvarps og sjónvarps á markaði þar sem einkafyrirtæki séu með starfsemi. „Okkar barátta gengur út á að ríkið eigi ekki að vera þar,“ segir Atli Rafn, „okkur finnst Ríkisútvarpið vera tímaskekkja.“
Hann segir að þetta sé ekki illa meint gagnvart einum né neinum heldur sé það hugmyndafræði Heimdellinga að ríkið eigi ekki að standa í atvinnurekstri.
Heimdallur hefur sent Ríkisútvarpinu eftirfarandi bréf vegna neitunar auglýsingadeildar RÚV:
„Markús Örn Antonsson,
útvarpsstjóri
Í morgun pantaði Heimdallur lesna auglýsingu hjá auglýsingadeild Ríkisútvarpsins, sem átti að vera fyrsti liður í RÚV-viku Heimdallar, en Heimdallur hefur ákveðið að tileinka þessa viku Ríkisútvarpinu og vekja með því athygli á því hvílík tímaskekkja það sé að ríkið reki fjölmiðla.
Umrædd auglýsing, sem átti að birtast á undan hádegisfréttum á RÚV, hljóðaði svo: „Slökkvum á Ríkisútvarpinu. Heimdallur.“ Auglýsingin var hins vegar ekki lesin á tilsettum tíma og þegar leitað var svara var Heimdalli tjáð að auglýsingunni hefði verið hafnað. Krafist var formlegrar skýringar á því á hvaða forsendum það hefði verið gert. Sú skýring sem barst var eftirfarandi: „Ríkisútvarpið birtir ekki ótilhlýðilegan áróður gegn fyrirtækjum, félögum eða einstaklingum.“
Stjórn Heimdallar telur þessi svör ófullnægjandi í ljósi þess að auglýsingin er ekki ótilhlýðilegur áróður heldur hluti af pólitískri hugmyndabaráttu viðurkennds stjórnmálafélags. Heimdallur fer þess því á leit að Ríkisútvarpið birti umrædda auglýsingu, en ella verði synjunin rökstudd með ítarlegri hætti. Þar á meðal er óskað eftir upplýsingum um það hvort heimild sé fyrir slíkri synjun í reglum sem Ríkisútvarpið starfar eftir og jafnframt upplýsingum um hvar mörk tilhlýðilegs og ótilhlýðilegs áróðurs liggja að mati Ríkisútvarpsins.
Virðingarfyllst,
stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.“