Sjálfstæðisflokkur og VG bæta við sig fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa bætt við sig fylgi frá þingkosningunum í vor, samkvæmt skoðanakönnun sem DV birtir í dag. Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn tapa fylgi.

Samkvæmt könnun DV mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 41,4% nú en var 33,7% í síðustu þingkosningum sem haldnar voru í maí. Í könnun DV í ágúst mældist fylgi flokksins hins vegar 43,1%.

Fylgi Samfylkingar er nú 27,3%, samkvæmt könnuninni, en var 31% í kosningunum og 34,9% í DV könnun í ágúst.

Fylgi Framsóknarflokks er nú 15,4%, var 17,7% í kosningunum og 8,9% í ágúst.

Fylgi VG er 11,9%, nú, var 8,8% í kosningunum og 6,9% í ágúst.

Fylgi Frjálslynda flokksins er 3,5% nú, var 7,4% í kosningunum og 5,7% í ágúst.

Úrtakið í könnuninni, sem gerð var í gær, var 600 manns og var skipt jafnt milli kynja og hlutfallslega milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert