Ákvörðun Air Greenland „algjört kjaftshögg“

"ÞETTA eru klárlega mikil vonbrigði og ég held þessi tíðindi hafi komið flatt upp á alla hér," sagði Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, um þá ákvörðun stjórnar Air Greenland að hætta flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Síðasta ferðin verður 1. desember næstkomandi, en áætlunarflugið milli þessarar áfangastaða hófst í lok apríl á þessu ári. Flogið hefur verið milli staðanna tvisvar í viku

"Væntingar sem Air Greenland gerði til þessa áætlunarflugs hafa ekki gengið eftir, hvorki í fjölda farþega né fragtflutningum. Einnig er sýnt að á næsta ári mun samkeppni í flugi milli Íslands og Danmerkur aukast," segir í frétt frá Grænlandsflugi.

Farþegafjöldi hefur ekki verið í takt við væntingar félagsins, en Michael Binzer, sölu- og markaðsstjóri Grænlandsflugs, sagði þegar félagið kynnti áform sín í byrjun mars síðastliðinn að stefnt væri að því að ná um 12 þúsund farþegum á árinu, þ.e. á 8 mánaða tímabili. Hann nefndi að forsvarsmenn félagsins gerðu sér grein fyrir að þeir væru að taka mikla áhættu með því að bjóða upp á þessa áætlunarleið en þeir legðu traust sitt á heimamenn.

Fimmti hver íbúi svæðisins farið utan með félaginu

Ragnheiður Jakobsdóttir hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar sagði að um 4.000 farþegar hefðu þegar flogið með félaginu það sem af er árs. Um 8% farþeganna hefðu keypt farmiða sína úti, þannig að um 3.700 manns hefðu farið frá Akureyri og til Kaupmannahafnar. Þannig léti nærri að fimmti hver íbúi svæðisins hefði flogið með félaginu á síðustu 7 mánuðum. "Við verðum vör við mikinn áhuga, spurn eftir ferðum út næsta vor og sumar er mikil," sagði Ragnheiður. Hún nefndi m.a. að starfsfólk ÚA hefði ætlað til Danmerkur í vor, starfsfólk sparisjóðanna á svæðinu um páskana og þá hefðu nokkrir kórar og skólahópar ýmist bókað far eða spurst fyrir. "Þetta leit mjög vel út, það voru ágætis bókanir héðan fram í miðjan janúar og svo virtist vera að lifna aftur í febrúar/mars. Þetta er því algjört kjaftshögg," sagði Ragnheiður. Hún nefndi að menn hefðu einnig bundið vonir við að fá Dani beint til Akureyrar, en sá draumur væri nú búinn að vera.

Ragnheiður sagði tíðindin hafa komið fyrirvaralaust, enginn forsvarsmanna flugfélagsins hefði haft samband við ferðaskrifstofuna og látið vita hvað í vændum væri. Þá væri fyrirvarinn einnig skammur, fluginu yrði hætt eftir þrjár vikur. Nánast allar vélar fyrir jól væru fullbókaðar, m.a. væru námsmenn á heimleið í jólafrí og þeir yrðu nú fyrir miklum óþægindum.

Engar skýringar fást

Kristján Þór bæjarstjóri sagði einnig að tíðindin hefðu komið flatt upp á menn og engar skýringar fengist hjá forsvarsmönnum félagsins, sem ekki hefðu svarað fyrirspurnum í gær. "Þeir ræða ekki við nokkurn mann, þessu er bara skellt fram og fyrirvarinn er nánast enginn. Okkur þykir þetta mjög undarlegt miðað við það sem á undan er gengið, m.a. í ljósi þess að hér gekk maður undir manns hönd að fá leyfi þeirra til áætlunarflugs framlengt og þeir voru með leyfi til loka október á næsta ári," sagði Kristján Þór.

Hann sagði að fyrirtækið hlyti að hafa forsendur fyrir sinni ákvörðun, en í ljósi þess sem menn höfðu lagt á sig við að fá leyfið ".þá höfum við engar skýringar á þessari algjöru stefnubreytingu félagsins og það finnst mér miður".

Í frétt frá flugfélaginu segir að Iceland Express muni fjölga ferðum milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar um helming á næsta ári og því fyrirséð að flugleiðin milli Akureyrar og Kaupmannahafnar eigi í vök að verjast. Þá hafi Flugleiðir lækkað verð farmiða á þessari leið verulega. "Erfitt hefur verið fyrir Air Greenland að keppa við þessi lágu fargjöld og er ljóst að margir Norðlendingar hafa frekar kosið að fara til Keflavíkur og fljúga með Iceland Express eða Icelandair en að fljúga með Air Greenland til Kaupmannahafnar," segir í tilkynningu félagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert