Erfitt að taka rásirnar af nema bætur komi í staðinn

Miðað við núverandi tækni er ekki pláss fyrir fleiri sjónvarpsstöðvar, sem dreifa dagskrá sinni hliðrænt um loftið, á suðvesturhorni landsins. Norðurljós ráða yfir flestum sjónvarps- og hljóðvarpstíðnum á þessu svæði, sem útdeilt er af Póst- og fjarskiptastofnun að fengnu leyfi frá útvarpsréttarnefnd.

Yfirmaður tæknideildar Norðurljósa segir erfitt að taka þessar rásir af Norðurljósum nema bætur komi fyrir. Þær séu líka stoðirnar undir rekstri fyrirtækisins og nýtingarréttur hafi myndast með notkun rásanna undanfarin ár.

Með tilkomu stafrænna útsendinga fjölgar tíðnum til útsendinga á núverandi rásum. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar telur ekki tímabært að bjóða út nýjar nýtanlegar tíðnir. Hann vill ekki svara því hvort t.d. Norðurljós, sem hafi hingað til nýtt rásirnar, eigi tilkall til nýju tíðnanna. Bendir hann á þá almennu reglu að enginn eigi þessar tíðnir heldur hafi heimild til að nota þær í ákveðinn tíma og í ákveðnum tilgangi. Sú heimild sé ekki framseljanleg. Yfirmaður Norðurljósa segir fyrirtækið hafa áunnið sér rétt til að nota sjónvarpsrásirnar og ætlist til að fá viðbótarrásir til afnota verði gefið leyfi til stafrænna útsendinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert