Umferðin gengið vonum framar í morgun

Umferðin í morgun hefur gengið stórslysalaust fyrir sig þrátt fyrir …
Umferðin í morgun hefur gengið stórslysalaust fyrir sig þrátt fyrir snjókomu og hálku. Óhöpp hafa orðið hér og þar og eitthvert eignatjón en fólk hefur sloppið með skrekkinn. mbl.is/Brynjar Gauti

Umferð á suðvesturhorni landsins hefur gengið vonum framar þrátt fyrir snjókomu og hálku. Varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík segir að þegar hvítt sé yfir verði oft minna um óhöpp, þá virðist ökumenn meðvitaðri um aðstæður en þegar ísing sé á götunum og enginn snjór gleymi þeir sér, aki hraðar en aðstæður leyfi og óhöppin verði.

Tvö óhöpp hafa orðið í umferðinnni í Reykjavík það sem af er degi, minniháttar árekstur varð á gatnamótum Laufásvegar og Njarðargötu og bíl var ekið á umferðarskilti á Breiðholtsbraut. Í Kópavogi var bifreið ekið á ljósastaur við aðrein Digranesvegar frá Hafnarfjarðarvegi. Þá rann jeppi til í hálku á Strandarheiði á Reykjanesbraut um hálfníuleytið í morgun, valt og lenti utan vegar. Engin slys urðu á fólki.

Vegagerðin segir að vegna snjókomu um sunnan- og vestanvert landið, sé víða hálka og snjór á vegum. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði. Hálka er víða á Norðurlandi og Austurlandi, einkum á heiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert