Lögreglumenn dæmdir í skilorðsbundið fangelsi

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi í dag tvo lög­reglu­menn, ann­an í 5 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og hinn í 2ja mánaða skil­orðsbundið fang­elsi, fyr­ir ólög­leg­ar hand­tök­ur í miðborg Reykja­vík­ur og brot í op­in­beru starfi snemma á þessu ári. Þá voru lög­reglu­menn­irn­ir dæmd­ir til að greiða manni, sem þeir hand­tóku, 100 þúsund krón­ur í bæt­ur og 60 þúsund krón­ur í máls­kostnað. Lög­reglu­menn­irn­ir voru einnig dæmd­ir til að greiða verj­end­um sín­um um 700 þúsund krón­ur í mál­svarn­ar­laun. Lög­reglu­menn­irn­ir tóku sér frest til að ákveða hvort þeir áfrýja dómn­um til Hæsta­rétt­ar.

Lög­reglu­menn­irn­ir voru dæmd­ir fyr­ir fyr­ir ólög­leg­ar hand­tök­ur í byrj­un mars, ranga skýrslu­gerð vegna mál­anna og brot í op­in­beru starfi. Ann­ar þeirra var og dæmd­ur fyr­ir að beita úðavopni gegn öðrum hinna hand­teknu án nægi­legra ástæðna eða til­efn­is.

Í skýrsl­um sín­um um hand­tök­urn­ar skráðu lög­reglu­menn­irn­ir, rang­lega sam­kvæmt niður­stöðu dóm­ara, að múgæs­ing hefði brot­ist út eft­ir hand­töku mann­anna.

Í dómi héraðsdóms seg­ir að brot­in hafi einkum verið al­var­leg vegna þess að það sé grund­vall­ar­atriði í lýðfrjálsu landi að al­menn­ing­ur geti treyst því að lög­regla vandi vinnu­brögð sín og fari að ábyrgð með vald­heim­ild­ir sín­ar. Sér­stak­lega sé það litið al­var­leg­um aug­um að lög­reglu­menn skuli freist­ast til að rétt­læta eig­in gerðir eða starfs­fé­laga sinna með röng­um skýrsl­um. Skýrsl­ur lög­reglu séu meg­in grund­völl­ur ákæru fyr­ir brot og þýðing­ar­mik­il sönn­un­ar­gögn í op­in­ber­um mál­um. Séu mikl­ir al­manna­hags­mun­ir tengd­ir því að hægt sé að treysta þeim og framb­urði lög­reglu­manna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert