Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur Reykjavíkurborgar á næsta ári verið 1397 milljónir króna, eða sem nemur 4% af tekjum. Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem lagt var fram í dag og tekið til umræðu í borgarstjórn. Þar kemur einnig fram að samkvæmt útkomuspá fyrir yfirstandandi ár verður 321 milljóna króna halli á rekstrinum eða sem svarar til 1% af tekjum. Er viðsnúningurinn því 1718 milljónir sem skýrist að miklu leyti af tekjum hjá Fasteignastofu og Skipulagssjóði, m.a. vegna sölu byggingarréttar.
Heildartekjur borgarsjóðs árið 2004 eru áætlaðar 37.715 milljónir króna sem er 8,7% hækkun frá útkomuspá ársins 2003. Hækkun skatttekna nemur 7,2% frá útkomuspá ársins 2003. Rekstrargjöld árið 2004 eru áætluð 38.143 milljónir sem er 4,6% hækkun frá útkomuspá ársins 2003. Af rekstrargjöldum eru 18.374 milljónir króna laun og launatengd gjöld en það er 5,9% hækkun frá útkomuspá 2003 en Laun og launatengd gjöld nema 48% af áætluðum rekstrargjöldum.
Þá er gert ráð fyrir að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld séu 1825 milljónir króna á næsta ári. Þar af er arður frá fyrirtækjum áætlaður 1533 milljónir, mest frá Orkuveitu Reykjavíkur eða 1348 milljónir.
Heildarskuldir borgarsjóðs nema samkvæmt áætluninni 21.182 milljónum króna og hækka um 1090 milljónir frá útkomuspá 2003 eða um 5%. Hækkunin er vegna flýtiframkvæmda, samtals 885 milljónir, vegna hækkunar skammtímalána, 140 milljónir, og vegna verðbótahækkunar innlendra langtímalána 65, milljónir.
Í frumvarpinu eru áætlaðar fjárfestingar Reykjavíkurborgar 16.433 milljónir en eru 12.365 milljónir í útkomuspá ársins 2003. Gert er ráð fyrir að heildarskuldir verði 73.626 milljónir. í árslok 2004 og hafi þá hækkað um 10.021 milljónir frá útkomuspá ársins 2003. Hreinar skuldir í árslok 2004 eru áætlaðar 60.393 milljónir sem er 9663 milljóna hækkun frá útkomuspá ársins 2003.