Vill kæra kvennagagnagrunn

Doktor Jóhann M. Hauksson stjórnmálafræðingur telur kvennagagnagrunninn „Kvennaslóðir“ ekki samrýmast siðareglum Háskóla Íslands, þar sem þar sé um að ræða þjónustu sem eingöngu er fyrir annað kynið. Kvennaslóðum er ætlað að færa konur nær fjölmiðlum og viðskiptalífinu þegar leitað er að sérfræðingum.

Jóhann segir margítrekað í nýútgefnum siðareglum Háskólans að ekki skuli mismuna fólki með tilliti til kynferðis þess og fleiri þátta. Því sé sérstakur gagnagrunnur sem eingöngu þjónar konum í greinilegri mótsögn við siðareglurnar. Jóhann segir sérlega slæmt að slíkar mótsagnir sé að finna í orðum og athöfnum Háskólans og hefur því ákveðið að kæra gagnagrunninn til siðanefndar Háskólans. Hann sendi strax fyrirspurn til skrifstofu rektors um hvernig hægt væri að kæra til siðanefndar.

„Síðan hefur ekki borist svar utan að skeyti barst sem í stóð að svars væri að vænta. Ég tel það ekki þjóna jafnréttishugsun að beita mismunun.

Þegar femínistar tala um jafnrétti eru þeir oftast að tala um jöfnun hópa en ekki jafnrétti. Jafnrétti er jafn réttur, bæði lagalegur og raunverulegur, ekki mismunun.“ Jóhann segir mikilvægt að í siðanefndinni sitji hlutlausir aðilar. „Vitandi það að að minnsta kosti eitt mál sem fer fyrir nefndina og hugsanlega það fyrsta snýr að mismunandi túlkun á því hvað mannréttindi eru væri í hæsta máta undarlegt ef einstaklingar sem hafa mjög ákveðnar skoðanir í þeim málum væru skipaðir í nefndina. Því væri jafn undarlegt að skipa mannréttindasinna, eins og mig, og það væri að skipa hópjöfnunarsinna eins og einhverja þeirra femínista sem við Háskólann starfa,“ segir Jóhann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert