Ísland getur orðið miðstöð smærri ríkja

Bessastaðir, bústaður forseta Íslands, baðaðir í birtu flugelda um áramótin …
Bessastaðir, bústaður forseta Íslands, baðaðir í birtu flugelda um áramótin 2003/2004. mbl.is/Ragnar Snær Karlsson

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði m.a. í nýársávarpi sínu í dag, að smáríki réðu ríflega fjórðungi atkvæðamagns á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þar og innan annarra alþjóðastofnana gætu þau orðið áhrifaafl. Hér hefði Ísland kjörstöðu til að verða að liði. „Ísland getur orðið miðstöð fyrir samræður og samskipti smærri ríkja og það getur tengt okkur traustum vináttuböndum við fjölda þjóða í öllum álfum; opnað leiðir fyrir nýja kynslóð til þátttöku í alþjóðastarfi víða um heim, til viðskipta, rannsókna og fræðistarfa.“

Umrót og iðukast nýrra strauma í breyttri heimsmynd hefur skapaða umræður, sagði forsetinn, sem á liðnu ári báru ýmis merki þess að Íslendingar væru ekki nægilega vel búnir undir afleiðingar sem einkavæðing og árangursrík útrás athafnafólks bæri með sér. „Við þurfum að ræða á sanngjarnan og heiðarlegan hátt hvernig við ætlum að gefa athafnafólki tækifæri til að njóta sín um leið og við varðveitum eðalkosti samfélagsins.“

Forsetinn sagði m.a. í nýársávarpi sínu, að þjóðir lifi ekki lengi á fornri frægð, einkum þegar hraði breytinga sé meiri en nokkru sinni. Frumkvæði og frumleiki í athöfn, tillögum og málafylgju skipti miklu um farsæld þjóða. Framlag Íslendinga til nýsköpunar, ferskleika í hugmyndum og listalífi, nýjunga í vísindum, tækni og atvinnuháttum muni ráða orðspori Íslendinga á komandi árum. Hann sagði að sumir kennimenn segðu að öld hinna mjúku áhrifa væri hafin og harður hnefaréttur dygði ekki til lengdar. Forsetinn sagði í framhaldi þess að einkum þrennu væri brýnt að sinna vel, heimsvæðingu viðskiptanna, frumkvæði í alþjóðlegu samstarfi og nýsköpun í listalífi. Á þessum þremur sviðum mætti þegar sjá vitnisburði um að Íslendingar gætu í sameiningu náð einstæðum árangri. Árangur ungs fólk á erlendum vettvangi menningar þyrfti að meta að verðleikum og sýna í verki með fjárstuðningi og skapa því aðstöðu við hæfi.

Öflugt og vakandi frumkvæði Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi væri aðkallandi, sagði forsetinn, þegar sífellt brýnna yrði að framlag þjóða væri sérstakt og auðugt að innihaldi. Þrennt væri sem ætti að liggja vel fyrir þjóðinni og gæti skipt veröldina alla miklu máli, hafið, jarðhiti og vetnisvæðing og málefni norðurslóða.

Áramótaávarp forsetans fer hér á eftir:

Góðir Íslendingar.

Ég óska ykkur öllum farsældar og gleði, gæfu og góðrar heilsu á árinu sem við hefjum nú og þakka vináttu og hlýhug í okkar garð hér á Bessastöðum, samstarf og samræður sem við höfum átt við þúsundir landsmanna á liðnu ári.

Lýðræðisvitund Íslendinga hefur löngum dugað þjóðinni vel, veitt stjórnvöldum aðhald og verið hreyfiafl á framfaraskeiði. Það var ríkur vilji fólksins sjálfs sem efldi baráttuna fyrir auknum rétti og hollt er að minnast þess þegar við fögnum senn aldarafmæli heimastjórnar og því að sextíu ár verða liðin frá lýðveldisstofnun. Þótt þjóðin nyti margra glæsilegra og mikilhæfra leiðtoga, frá tímum Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafsteins og Skúla Thoroddsens til kjörs fyrsta forsetans á Þingvöllum 1944, þá skipti aflið sem bjó í stuðningi almennings sköpum á örlagastundum.

Vissulega gefur afmælisár okkur tilefni til að líta yfir farinn veg, meta söguna og lærdómana sem hún færir okkur en tímamót af þessu tagi eru líka kjörin til að ræða framtíðina, spyrja hvaða breytingar séu í vændum, ræða tækifærin sem blasa við og stöðuna sem ný heimsmynd og árangur okkar sjálfra hefur skapað.

Þjóðir lifa ekki lengi á fornri frægð, einkum nú þegar hraði breytinganna er meiri en nokkru sinni. Þættirnir sem á liðinni öld og reyndar lengur réðu úrslitum þegar ríki voru metin – herstyrkur, olía, málmar, þungaiðnaður – deila nú sessi með öðrum eiginleikum, frumkvæði og frumleika í athöfn, tillögum og málafylgju. Framlag okkar til nýsköpunar, ferskleiki í hugmyndum og listalífi, nýjungar í vísindum, tækni og atvinnuháttum munu einkum ráða orðspori okkar á komandi árum.

Sumir kennimenn hafa jafnvel sagt að nú sé hafin öld hinna mjúku áhrifa og harður hnefaréttur dugi ekki til lengdar. Þjóðir þurfi að vakna til vitundar um að ný hugsun móti stöðu þeirra á alþjóðavelli. Spurt verði af vaxandi þunga: Hvað hafið þið til málanna að leggja? Hvert er erindið sem þið eigið við umheiminn? Hvaða boðskapur og nýsköpun felst í framlagi ykkar? – Ekki eingöngu: Hvert er afl þitt, auður eða hernaðarmáttur?

Slík þáttaskil gætu fært okkur Íslendingum fjölmörg ný sóknarfæri ef við höfum vit og vilja, þrótt og metnað til að laga okkur að breytingunum og eflum þá eiginleika sem skapa okkur sérstöðu í framtíðinni.

Í þessum efnum er þrennt sem brýnt er að sinna vel: Heimsvæðing viðskiptanna, frumkvæði í alþjóðlegu samstarfi og nýsköpun í listalífi. Á þessum þremur sviðum sjáum við nú þegar vitnisburð um að við Íslendingar getum í sameiningu náð einstæðum árangri.

Á liðnu ári tókst ungri kynslóð að vekja enn meiri áhuga annarra þjóða á samtímamenningu okkar Íslendinga. Sigurför Nóa albinóa um kvikmyndahátíðir í ólíkum löndum, glæsilegar viðtökur Rómeó og Júlíu á heimaslóð Shakespeares, orðspor hljómsveita og tónlistarfólks víða í Evrópu og Vesturheimi, síaukinn áhugi erlendis á verkum íslenskra rithöfunda og á íslenskri myndlist og dansi eru vitnisburður um að þátttaka okkar í heimsmenningunni er í vaxandi mæli byggð á sköpunarkrafti nýrrar kynslóðar.

Þegar sjálfstæðisbaráttan skilaði þjóðinni heimastjórn var það einkum forn frægð, handritin, hetjusögur og Eddukvæði sem mynduðu kjarnann í menningarlegum rökum fyrir auknum rétti Íslendinga. Nú eru það ekki síður verkin sem samtíminn skapar sem auka til muna orðstír okkar og sjálfstraust í samfélagi þjóða heims.

Við þurfum því að meta að verðleikum afrekin sem hin unga kynslóð er að vinna og sýna með ráðstöfun fjármagns og aðstöðunni sem almannavaldið getur skapað að við höfum skilið til hlítar ávinninginn sem þjóðinni hlotnast þegar ný listakynslóð er að sigra heiminn.

Í annan stað kalla breyttir tímar á öflugt og vakandi frumkvæði okkar í alþjóðlegu samstarfi. Sífellt verður brýnna að framlag þjóða sé sérstakt og auðugt að innihaldi, stefnan byggð á ferskum hugmyndum, þekkingu og reynslu sem komið geta öðrum að notum.

Í þessum efnum þurfum við Íslendingar að leggja rækt við nokkra þætti sem í senn liggja vel við okkur og skipta veröldina alla miklu máli.

Í fyrsta lagi: Hafið. Auðlindir sjávar, skynsamleg nýting þeirra, samstarf þjóða um uppbyggingu fiskistofna, rannsóknir á hafstraumum og vegvísum um loftslagsbreytingar sem hafið geymir, samspil heilbrigðis og fiskneyslu, baráttunnar gegn illvígum sjúkdómum og aðgengis að lykilefnum sem sjórinn skapar – allt eru þetta viðfangsefni sem alþjóðasamfélagið telur nú einkar brýn.

Við Íslendingar búum að ríkum reynslusjóði á þessu sviði, höfum þar öðlast virðingu og áhrif, allt frá samningum um Hafréttarsáttmálann og útfærslu landhelginnar til árangurs við arðbæran og hátæknivæddan sjávarútveg á okkar tímum og þess orðspors sem nýjungar í hugbúnaði og rannsóknir vísindamanna og sérfræðinga hafa skapað.

Þótt hafið þeki stærstan hluta jarðarinnar hefur það að mörgu leyti verið vanrækt svæði. Við vitum meira um mánann en hafið, sagði hinn merki landkönnuður Thor Heyerdal. Það kann þó að horfa til betri vegar því nú er að vaxa öflug alþjóðleg hreyfing sem setur umfjöllun um málefni hafsins á oddinn. Hún veitir okkur Íslendingum möguleika til að láta til okkar taka, verða forystuafl í hugmyndavinnu og tillögugerð, gera úr arfleifð okkar öndvegi til áhrifa á nýrri öld.

Í öðru lagi: Jarðhiti og vetnisvæðing. Ákaft er nú leitað að orkugjöfum sem ekki ógna lífríki jarðar, skapa grundvöll framfara og hagsældar án mengunar sem skaðar heilsu og heill milljónanna. Fjölmargar þjóða vilja nú nýta jarðhitann sem víða um veröld leynist í jörðu og áhrifamesta ríki heims hefur nýlega boðið Íslendingum ásamt fáeinum öðrum til samstarfs um hvernig best er að vetnisvæða borgir og samfélög í framtíðinni.

Á báðum þessum sviðum eru Íslendingar nú í fremstu röð og mikilvægt að við nýtum tækifærin sem slík forysta veitir. Vísindamenn okkar, sérfræðingar og áhrifafólk í Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkustofnun, Háskóla Íslands og víðar á vettvangi orkumála hafa sýnt áræðni og atorku; árangur þeirra er að færa þjóðinni fjölmörg sóknarfæri.

Það er merkileg þversögn, en líka táknrænt fyrir nýja tíma, að ein smæsta þjóð heims skuli vera leiðandi afl á sviði þar sem heimsveldin voru áður allsráðandi. Nú leita Kína og Kalifornía, Rússland og ríkin í Evrópu miðri, lönd í Suður-Ameríku og Afríku eftir samstarfi við okkur og framlag okkar getur orðið grundvöllur að traustum tengslum við tugi þjóða.

Í þriðja lagi: Norðurslóðir. Á dögum kalda stríðsins var þessi heimshluti helfrosinn vegna kjarnorkuógnar stórveldanna en nú hefur þar skapast nýr vettvangur fyrir samvinnu ríkja og Norðurlönd sitja hér við borðið ásamt Rússlandi, Kanada og Bandaríkjunum.

Í málefnum Norðurslóða getum við Íslendingar lagt margt til mála með þeim hætti að eftir sé tekið. Okkur er sýndur trúnaður. Við förum nú með formennsku í Norðurskautsráðinu og gegnum veigamiklu hlutverki í Háskólakeðju norðurskautsins og Rannsóknarþingi norðursins en Háskólinn á Akureyri er þar umsvifamikill fulltrúi okkar. Okkur gefst færi á að styrkja tengsl okkar við tvö áhrifaríkustu ríki heims, Bandaríkin og Rússland, með þróun samvinnu sem er í senn ný, heillandi og brýn.

Margt bendir til að Norðurslóðir verði æ mikilvægari í framtíðinni, lykilsvæði í framfararsókn og hagsæld jarðarbúa. Þar er að finna um fjórðung vannýttrar orku í veröldinni, forðabúr sem verður sífellt verðmætara. Þar kann senn að opnast ný siglingaleið, norðurleiðin, sem styttir ferðir milli Ameríku og Evrópu annars vegar og Asíu hins vegar á jafn róttækan hátt og Súesskurðurinn umbylti heimsviðskiptunum fyrir röskri öld; og höfum í huga að Asía verður líklega senn helsta aflvélin í hagkerfi heimsins.

Á Norðurslóðum er einnig að finna mikilvægustu mælistikur á lofslagsbreytingar jarðarinnar, vegvísa sem sýna hvort stórfelld hætta steðjar að lífríki og heilsu íbúa í öllum álfum. Hafstraumar sem leika um Ísland, hitastig þeirra og efnasambönd, áhrif af bráðnun íss og jökla, aukinn þungi í heimskautsfljótum eru ábendingar um að heimsbyggð kunni senn að horfast í augu við nýja ógn sem umturnað getur lífsháttum og efnahag allra jarðarbúa. Rannsóknarsamstarf á Norðurslóðum er forsenda fyrir réttu mati á hættunum sem blasa við og framlag okkar á þeim vettvangi verður sífellt brýnna.

Auk hafsins, orkunnar og Norðurslóða eru málefni smárra ríkja fjórði þátturinn sem við þurfum að sinna vel.

Nú eru rúmlega 50 ríki innan Sameinuðu þjóðanna sem teljast smá en í árdaga samtakanna vorum við nánast ein um hituna í þessum flokki. Smáríkin ráða nú ríflega fjórðungi atkvæðamagns á Allsherjarþinginu og innan annarra alþjóðastofnana geta þau orðið áhrifaafl.

Hagsmunir þessara ríkja, vandamál, sérstaða og viðfangsefni hafa á ýmsan hátt verið vanrækt vegna þess að stefnumótun á vettvangi stjórnkerfa og efnahagsmála hefur einkum tekið mið af kenningum og hugmyndakerfum sem mótuð hafa verið í stærri ríkjum og einnig vegna þess að flest hinna smærri ríkja eru nýkomin á alþjóðavettvang.

Hér hefur Ísland kjörstöðu til að verða að liði. Árangur okkar í efnahagsþróun, menntun og heilsugæslu, stofnanamótun og alþjóðlegri samvinnu er langt umfram það sem smæðin gefur til kynna. Við ógnum engum, erum friðsælt og opið lýðræðisríki og annarlegir hagsmunir eru ekki í farangri okkar. Aðrir eru því reiðubúnir að kynnast reynslu Íslendinga en hafa allan vara á sér þegar öflugri ríki bjóða fram krafta sína.

Ísland getur orðið miðstöð fyrir samræður og samskipti smærri ríkja og það getur tengt okkur traustum vináttuböndum við fjölda þjóða í öllum álfum; opnað leiðir fyrir nýja kynslóð til þátttöku í alþjóðastarfi víða um heim, til viðskipta, rannsókna og fræðistarfa.

Já, hin nýja tíð færir okkur fjölmörg tækifæri sem áður voru óþekkt. Nú ríður á að við höfum vit og samstarfsvilja, einnig í okkar eigin röðum hér á heimavelli, til að nýta þau Íslandi til framdráttar og farsældar á nýrri öld.

Það er brýnt að skilja til hlítar breytingarnar sem orðið hafa á heimsmyndinni en gleyma sér ekki í flækjum og togstreitu fyrri tíðar. Aldarafmæli heimastjórnar ætti að vera okkur tilefni til að hugleiða ekki aðeins hin risavöxnu umskipti sem orðið hafa síðan fyrsti ráðherra Íslands gekk í Alþingissalinn heldur einnig til að vera samstiga í að hagnýta tækifærin sem iðukast nýrra strauma færir okkur.

Það snýr einkum að umrótinu sem heimsvæðing viðskiptanna hefur skapað en umræður sem urðu á liðnu ári báru ýmis merki þess að við værum ekki nægilega vel búin undir afleiðingarnar sem einkavæðing og árangursrík útrás athafnafólks bera með sér.

Heimsvæðing viðskiptanna og opnun hins íslenska hagkerfis hafa í fyrsta sinni í sögu þjóðar okkar veitt frumkvöðlum með íslenskar rætur tækifæri til að verða forystuafl á heimsvísu og árangur þeirra getur skapað svo mikinn arð að engin dæmi eru um slíkt í reynsluheimi síðustu aldar.

Fyrirtæki í smásöluverslun, lyfjaframleiðslu, drykkjarvörum, bankastarfsemi, fjármálasýslu, gervilimum, matvælum og á fleiri sviðum hafa á síðustu árum flutt sig á alþjóðamarkað og náð slíkum árangri að eignastaða og árlegur hagnaður eru einstæð á íslenska vísu.

Vissulega er þessi þróun ungu íslensku athafnafólki hvatning til að láta að sér kveða en hún vekur líka spurningar um hvernig alþjóðleg viðhorf til viðskipta falla að íslenskum veruleika.

Við þurfum að ræða á sanngjarnan og heiðarlegan hátt hvernig við ætlum að gefa athafnafólki tækifæri til að njóta sín um leið og við varðveitum eðalkosti samfélagsins.

Hvernig ætlum við að tryggja að arðurinn af heimsvæðingu viðskiptanna skili sér hingað heim og komi öllum til góða? Hver verður hlutur íslensks almennings í hinum mikla auði sem nýju athafnaskáldin eru að skapa? Hvað er í senn sanngjarnt og vænlegt til árangurs í framtíðinni?

Svörin munu ráða miklu um þróunina og höfum í huga að opnun hagkerfisins er þess eðlis, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að fyrirtækin geta einfaldlega flutt heimkynni sín, skattskyldu og þjóðþrifaframlög til annarra landa ef tökin eru hert um of hér heima. En fyrirtækin þurfa líka að skilja að miklum árangri fylgja ríkar samfélagslegar skyldur og ábyrgð.

Við þurfum í sameiningu að ráða fram úr vandamálum sem þessi umskipti skapa og beita til þess samræðum þar sem allir hafa sama rétt og sanngirni og framsýni ráða för. Takist okkur það getur hin nýja tíð fært okkur Íslendingum mikla hagsæld og tækifærin lagt grundvöll að einstöku framfararskeiði.

Ég óska ykkur öllum farsældar á nýju ári og vona að gæfan fylgi ykkur ávallt í framtíðinni; gætum vel að því góða landi sem við fengum í arf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka