Biðraðir við salerni bannaðar í flugvélum á leið til Bandaríkjanna

Ástralska flugfélagið Qantas Airways segir bandarísk stjórnvöld nú hafa lagt bann við því að farþegar standi í biðröð eftir að komast inn á salerni flugvéla á leið til Bandaríkjanna eða yfirleitt að safnast saman á öðrum stöðum í þeim.

Farþegaflug frá Ástralíu yfir Kyrrahafið til Bandaríkjanna er með því lengsta sem þekkist. Segjast forráðamenn Quantas ætla að upplýsa farþega sína um hinar nýju bandarísku reglur.

„Bandarísk samgönguöryggisyfirvöld krefjast þess nú að farþegar í flugvélum á leið til Bandaríkjanna safnist ekki saman í hópum á neinum svæðum flugvéla, einkum við salerni," sagði talskona Qantas.

Áströlskum stjórnvöldum líst ekki um of á nýja bannið og John Anderson samgönguráðherra, sem einnig er varaforsætisráðherra, telur þær heldur óraunhæfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert