Menn sem rændu manni og misþyrmdu lausir úr haldi

Fimm mönnum var sleppt að loknum yfirheyrslum í gærkvöldi en þeir voru handteknir í fyrrinótt eftir að hafa misþyrmt manni, m.a. með því að draga hann aftan í bíl eftir svellbunkum á bílastæði á Höfða.

Komið hefur í ljós að mennirnir voru að leita að stúlku sem þeir töldu hafa hlunnfarið þá í bílaviðskiptum er þeir ruddust inn á heimili mannsins og numu hann á brott. Freistuðu þeir þess að fá hann til að gefa upp dvalarstað stúlkunnar með því að ganga í skrokk á honum og meiða.

Mennirnir voru handteknir eftir ábendingu vaktmanns á Höfða sem varð athæfis þeirra var og gerði lögreglu viðvart. Þeir eru fæddir á árabilinu 1971-1981 og tengjast ekki allir umræddum bílaviðskiptum, sem ósætti er um, beint.

Fórnarlambið var sett í farangursrými bifreiðar við heimili sitt eftir að hafa greint frá mögulegum dvalarstað stúlkunnar. Barst leikurinn suður í Kópavog og Hafnarfjörð og var manninum misþyrmt reglulega til að fá upp úr honum upplýsingar. Þá var hann næst færður í geymslu í Kópavogi og beittur þar ofbeldi. Af hræðslu við misindismennina er talið að hann hafi reynt að verða við óskum þeirra um að upplýsa hvar stúlkan væri niðurkomin.

Að endingu barst förin í Höfðahverfi í Reykjavík þar sem teygju var brugðið um háls mannsins og hann dreginn eftir bílnum á svelli. Eftirlitsmaður á svæðinu varð vitni að atburðinum og tilkynnti lögreglunni strax um tilvikið. Þá var klukkan rúmlega hálftvö um nóttina. Styggð kom að þeim sem voru að verki þegar þeir urðu mannsins varir og flýðu strax af vettvangi en skildu manninn eftir. Vitnið gat hins vegar gefið greinagóða lýsingu á bíl mannanna og hafði lögreglan fljótt uppi á bílnum. Var þá stúlkan, sem leitað var að, komin í leitirnar og voru mennirnir fimm handteknir.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að mennirnir hafi verið yfirheyrðir í gær. Reynt sé að komast til botns í málinu en enn séu ekki öll kurl komin til grafar. Hann segir að málið tengist ekki fíkniefnum eða fíkniefnaviðskiptum. Við handtöku mannanna fundust þó ætluð fíkniefni í bílnum; átta grömm af hvítu efni og níu grömm af því sem talið er vera hass. Þá kannaðist lögreglan við flesta mennina vegna fyrri afskipta af þeim.

Fórnarlambið er ekki mikið slasað og mætti í skýrslutöku til lögreglunnar í gær. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ólíklegt að fórnarlambið þori að kæra frelsissviptinguna og barsmíðarnar af ótta við mennina. Þó getur lögregan rannsakað málið sjálf sökum alvarleika þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert