Hannes segir allt tal um ritstuld fráleitt

Frá blaðamannafundi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í dag.
Frá blaðamannafundi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, segir í greinargerð um gagnrýni sem hann hefur sætt vegna bókarinnar Halldórs, að í eftirmála bókarinnar komi skýrt fram, að hann nýti sér efni úr minningabókum Halldórs Laxness og ritum Peters Hallbergs, þótt hann breyti textum eftir þörfum eigin verks. „Ég geri hvergi neina tilraun til að leyna því. Raunar tók ég þetta einmitt sérstaklega fram til þess að þurfa ekki að vitna eins oft og ella í þessi rit. Allt tal um ritstuld er því fráleitt," segir Hannes, sem boðaði til blaðamannafundar nú síðdegis þar sem hann lagði greinargerðina fram.

„Ég gerði ekkert óheiðarlegt og framdi engan ritstuld. (...) Ég stend við að þetta sé vönduð og góð bók," sagði Hannes á blaðamannafundinum. Hann sagði að mikið væri af villum og rangfærslum í þeirri gagnrýni, sem hann hefði fengið á bókina. Þá upplýsti Hannes, að bókin hefði selst í um 4 þúsund eintökum.

Í greinargerðinni kemur fram, að Pétur Már Ólafsson, útgáfustjóri Vöku-Helgafells, hafi farið yfir próförk að bókinni að beiðni fjölskyldu Halldórs Laxness. Eftir yfirlesturinn hafi Pétur Már gert nokkrar tillögur um breytingar, aðallega til að stytta beinar tilvitnanir, og segist Hannes hafa farið eftir þeim nær öllum. Hann hafi enga athugasemd fengið frá Pétri Má um það, hvernig minningabækur Halldórs og önnur verk hans höfðu verið notuð í bókinni.

„Það blasir við öllum lesendum bókar minnar, hvernig ég nýtti mér minningabækur Halldórs Kiljans Laxness og önnur skrif. Þegar ég taldi almennar lýsingar hans á aðstæðum, atvikum og einstaklingum á ævibrautinni eiga erindi til lesenda, færði ég frásögn hans í óbeina ræðu og úr fyrstu persónu (ég) í þriðju persónu (hann) og breytti henni jafnframt eftir þörfum textans. Stundum hagræddi ég frásögninni ekki mikið, stundum meira, allt eftir því hvað átti við. Þegar Halldór var hins vegar að segja frá eigin skoðunum eða sálarlífi, hafði ég orð hans sjálfs óbreytt með stafsetningu hans og auðkenndi þau. Ég tel þessa aðferð betri en þá að fylla blaðsíðurnar með löngum, beinum tilvitnunum. Það á að laga texta að þörfum verksins í stað þess að láta sér nægja að klippa og líma saman efnishlutana og setja utan um þá gæsalappir. Meginverkefnið var að reyna að nálgast Halldór, fylgja honum eftir á lífsleiðinni," segir Hannes í greinargerðinni.

Hannes segir, að þeir, sem fordæmt hafi bók hans, hafi kosið að horfa fram hjá eftirmálanum. Þeir virðist líka hafa lagt á verk hans mælikvarða lokaritgerðar í bókmenntafræði. Þetta sé hins vegar ekki skólaritgerð, heldur ævisaga handa almenningi, og slík saga þurfi að vera aðgengileg, krydduð sögum og stílbrögðum, jafnvel skáldlegu ívafi, sem þó verði að vera stutt heimildum.

„Verkefni ævisöguritarans er að gæða frásögnina lífi, lýsa aðstæðum og atvikum á þann hátt, að lesendurnir finni af þeim bragð og keim. Ég fór um þetta í smiðju til Halldórs Kiljans Laxness og margra annarra. Raunar gekk ég miklu skemur í skáldlegum lýsingum en margir aðrir íslenskir ævisagnahöfundar," segir Hannes Hólmsteinn í greinargerðinni.

Hann fer þar yfir gagnrýni sem bókin hefur fengið og segir hana einkennast af hroðvirkni og ónákvæmni. Það sýni að enginn sé óskeikull, hvorki hann né ritdómararnir. „En ásakanir á hendur mér um ritstuld og óheiðarleg vinnubrögð standast ekki. Endalaust má deila um það, hvort ég hefði átt að hafa einhverjum tilvísunum fleira í þessu fyrsta bindi mínu af ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, þótt þær séu raunar 1627 talsins. En það réttlætir ekki þá herferð, sem rekin hefur verið gegn mér í fjölmiðlum. Hún stjórnast af öðrum og annarlegri hvötum en sannleiksást," segir Hannes í lok greinargerðar sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert