Flutningabíll valt í hálku við Fellabæ

Flutningabíllinn á hliðinni.
Flutningabíllinn á hliðinni. mbl.is/Ólafía Herborg

Malarflutningabíll valt rétt norðan við Fellabæ skömmu fyrir hádegið í dag. Ekki er vitað um meiðsl eða skemmdir á bílnum en ökumaðurinn fór á Heilbrigðisstofnun Austurlands til nánari skoðunar. Að sögn Sigurþórs Sigurðarsonar framkvæmdastjóra Malarvinnslunnar er algert neyðarástand vegna hálku á vegum Austurlandi. Þetta hægir mjög á framkvæmdum sem eru í gangi víða á Héraði og hætt var að keyra á þungum bílum í Kárahnjúka í gær vegna hálkunnar.

Loftpúði undir malarflutningabílnum sprakk við Urriðavatnsendann og ætlaði bílstjórinn að reyna að aka bílnum yfir í Egilsstaði til viðgerðar. Við Vegagerðarhúsið fóru að hringja viðvörunarbjöllur vegna loftleysisins. Bílstjórinn stöðvaði vegna þessa, en þá skipti engum togum að bíllinn rann viðstöðulaust út á hlið niður fyrir veginn og valt þar á hliðina.

Á annan tug manna hefur leitað læknis á Egilsstöðum vegna þess að það hefur dottið í hálkunni. Að sögn Péturs Heimissonar,læknis á Heilbrigðisstofnun Austurlands, hafa sem betur fer fáir hlotið alvarleg meiðsli. Hvetur hann fólk til áfram að gæta varúðar í hálkunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert