Þingmenn Norðausturlands um söluna á ÚA

Valgerður Sverrisdóttur, þingmaðurFramsóknarflokksins á Norðausturlandi og viðskipta- og iðnaðarráðherra, sagði að það væri ekkert launungarmál að það væri meiri trygging fyrir framtíðina að norðanmenn hefðu keypt ÚA, en hún hefði átt fund með nýjum eigendum og þeir hefðu sannfært hana um að þeim gangi ekkert annað til en að reka þetta fyrirtæki áfram í þeirri mynd sem verið hefði. ÚA væri öflugt fyrirtæki og vel rekið og hún tryði þeim.

"Þarna er um gríðarlega mikilvægt fyrirtæki að ræða á Norðurlandi, ekki bara á Akureyri heldur á minni stöðum eins og Grenivík, Raufarhöfn, Laugum og Húsavík, þannig að það er náttúrlega augljóst að þetta er stórmál fyrir íbúa þessa svæðis að þarna verði haldið vel á málum," sagði Valgerður.

Hún sagði að það mætti gagnrýna Landsbankann að því leyti til að þar hefði verið sagt af forsvarsmönnum bankans að það yrðu teknar upp viðræður við heimamenn í sambandi við söluna á þessum fyrirtækjum og í tilfelli Akureyrar hefði það ekki gengið eftir, sem væri slæmt. Hins vegar þekkti maður kannski ekki alla söguna þannig að erfitt væri að meta það nákvæmlega. "En það eru vonbrigði með framgöngu Landsbankans í sambandi við þessi viðskipti af hálfu KEA," sagði Valgerður.

Aðspurð hvort það skapaði ekki óöryggi í byggðarlaginu að jafn mikilvægt fyrirtæki og ÚA gengi kaupum og sölum með skömmu millibili, benti Valgerður á að þar til bær yfirvöld á Akureyri hefðu tekið ákvörðun um að selja ÚA og þar með hefði boltinn verið gefinn upp og ekki sama öryggið eftir að sú ákvörðun hefði verið tekin. Engu að síður hefði reksturinn gengið vel í eigu Eimskips og ekkert út á það að setja. Maður yrði að gefa nýjum eigendum tækifæri og hún vildi bjóða þá velkomna í kjördæmið og treysti því að þetta fyrirtæki yrði áfram mikilvægt atvinnufyrirtæki í kjördæminu.

Aðspurð hvort henni fyndist þetta gefa tilefni til þess að endurskoða kvótakerfið og tengsl þess við byggðalög, sagðist hún ekki telja það. "Það er ekki verið að fara með fyrirtækið burt. Þetta gengur kaupum og sölum og það er bara nýi tíminn sem við erum að horfast í augu við," sagði Valgerður ennfremur.

Geta selt burtu aflaheimildirnar

"Ég sagði það í kosningabaráttunni og hef margsagt það að einn af verstu ókostum núverandi kvótakerfis er það að menn geta selt í burtu aflaheimildir og skilið heilu og hálfu byggðalögin eftir í rúst, þess vegna að loknum næturfundi meðan aðrir sofa rótt. Nú sýnist mér það hafa gerst þarna á Akureyri," sagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar á Norðausturlandi.

Hann sagðist auðvitað harma, úr því að Eimskip hefði ákveðið að selja þetta, að heimamenn og þá KEA í þessu tilfelli sem hefði verið í viðræðum skyldi ekki hafa geta keypt fyrirtækið.

"En þetta er greinilega þannig að þetta er bara uppboðsmakaður, hver býður best, og það leiðir til að þessi aðili kaupir fyrirtækið en ekki heimaaðilarnir eða KEA. Það auðvitað harma ég og ég ætla rétt að vona vegna þess að sporin hræða að það séu ekki einhver Básafellsmódel notuð að þessu sinni í framhaldinu," sagði Kristján ennfremur.

Hann bætti við að þetta væri ekki eina sjávarútvegsfyrirtækið sem hefði verið keypt og selt upp á síðkastið. Í því sambandi mætti benda á erfiðleikana á Raufarhöfn vegna þess að aflaheimildirnar hefðu farið í burtu og hetjulega baráttu sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps við það að kaupa aftur stóran hluta af hlutabréfum í Tanga til þess að freista þess að halda fyrirtækinu og atvinnu heima. Hann benti einnig á kaup á stórum hlut í Þormóði ramma fyrir 3,4 milljarða á síðasta ári af aðila sem hefði verið að safna sér upp í meirihluta. Það væri alveg með ólíkindum hvernig væri verslað með þennan óveidda fisk.

"Ég bíð spenntur eftir því að heyra nú hvað stjórnarþingmenn ýmsir eins og til dæmis Halldór Blöndal, Valgerður Sverrisdóttir og hvað bæjarstjórinn á Akureyri segja núna þegar ég hugsa aftur til okkar kosningabaráttu. Og hvað segir til dæmis forstjóri ÚA sem gagnrýndi sjávarútvegsstefnu okkar og málflutning í síðustu kosningabaráttu," sagði Kristján.

"Ég set mörg spurningarmerki við þessa aðferð Eimskipafélagsmanna að selja þetta og finnst það sárt að heimaaðilarnir, KEA, skuli ekki hafa fengið að kaupa til þess að tryggja eignarhaldið á svæðinu," sagði Kristján ennfremur.

Stangast á við fyrri yfirlýsingar

Halldór Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Norðausturlandi, sagði að það væri óhætt að segja að þessi sala hefði komið Akureyringum í opna skjöldu. "Þeir höfðu lýst því yfir bæði í Landsbankanum og hjá Eimskipafélaginu að þeir myndu leggja áherslu á að Útgerðarfélagið yrði selt heimamönnum ef til kæmi og þess vegna finnst mér þessi skyndilega sala stangast á við það sem þeir höfðu áður sagt. Það er auðvitað mjög slæmt fyrir lánastofnun eins og Landsbankann ef mönnum finnst að þeir geti ekki treyst því sem forustumenn hans segja," sagði Halldór.

Hann sagði að á hinn bóginn hefði hann ekkert nema gott um Guðmund Kristjánsson og þá feðga að segja. Þeir væru duglegir útgerðarmenn og þrautseigir. "Ég efast ekki um að vilji þeirra standi til þess að byggja upp Útgerðarfélag Akureyringa og nýta þá verkþekkingu og mannauð sem þar er," sagði Halldór.

Hann bætti því við að hann hefði átt stutt tal við Guðmund í gær og ráðgert væri að þeir myndu hittast á fundi í dag.

Halldór sagði aðspurður að frystihús ÚA væri meðal þeirra fremstu sem þekktust og hann væri ekki í vafa um að það yrði rekið áfram. Annað kæmi ekki til greina og menn gætu verið rólegir þess vegna.

Hann sagði einnig aðspurður ekki telja að þetta væri áfellisdómur yfir kvótakerfinu sem slíku. Yfirburðir þess fram yfir önnur kerfi sem reynd hefðu verið í þessum efnum væru ótvíræðir. Það hefði meðal annars komið fram hjá grænfriðungum að þeir teldu okkur ganga betur um miðin en aðrir og einnig lægi ljóst fyrir að sú sterka stjórn sem hægt væri að hafa á veiðunum og skipulagi þeirra í samræmi við þarfir vinnslunar og kröfu markaðarins hefði sannað sig og sýndi að við hefðum náð meiri framleiðni út úr sjávarveginum en hægt hefði verið að vonast eftir.

"Það hefur verið talað um að tengja kvótann byggðarlögum, en þá spyr ég við hvað á að miða. Við vitum að aflinn er ekki endilega lagður upp þar sem kvótinn er skráður og ég held að það verði mjög erfið þraut að leysa að átta sig á því hversu mikið eigi að koma í hlut hvers byggðalags. Ég sé ekki hvernig menn geta leyst það, enda yrði slíkt gagnslaust nema menn legðu þá kvöð á skipin um leið að þau yrðu að leggja upp í sínum höfnum og fiskurinn að vinnast þar. Þetta getur aldrei gengið upp," sagði Halldór ennfremur.

Skilgetið afkvæmi kvótakerfisins

Steingrímur Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna á Norðausturlandi, sagði að sér kæmi mjög á óvart að þetta hefði gerst svona snöggt og það vekti undrun að þeir heimaaðilar sem hefðu sýnt málinu áhuga skyldu vakna upp að morgni og allt væri búið og gert.

"Ég skil vel að það sé uggur í mönnum. Þegar svona sviptingar eiga sér stað um mikilvæg fjöregg í atvinnulífinu fer ekkert hjá því að menn að séu uggandi um sinn hag," sagði Steingrímur.

Hann sagði að það væri rétt að hafa það í huga að þetta væri skilgetið afkvæmi þessa kerfis, fiskveiðistjórnunarkerfis með frjálsu framsali veiðiheimilda í markaðsvæddum sjávarútvegi.

"Ég held að þetta sé bara einn atburður af mjög mörgum sem hefur skekið samfélög vítt og breitt við sjávarsíðuna og mun halda áfram að gera það á meðan þetta kerfi er við lýði óbreytt. Það staðfestir bara enn frekar í mínum huga þessar sviptingar sem nú eru að ganga yfir og þann óróleika sem þetta skapar á stórum stöðum eins og Akureyri, Akranesi og Skagaströnd. Svona verður þetta þangað til að búið er breyta þarna um stefnu og að minnsta kosti byggðatengja að einhverju leyti þennan mikilvæga afnotarétt, þennan aðgöngumiða að sjávarauðlindinni," sagði Steingrímur.

Hann sagði að enginn vissi hversu lengi þeir sem væru að kaupa þessar eignir í dag myndu kjósa að halda þeim eða reka þær í óbreyttri mynd án þess að hann væri að fella einhveja dóma um þá sem væru að kaupa þetta nú. Fólk ætti hins vegar að spyrja sig að því hvort það vildi þetta fyrirkomulag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert