Stóru olíufélögin þrjú, Olís, Olíufélagið og Skeljungur, hafa öll hækkað eldsneytisverð á sjálfsafgreiðslustöðvum en félögin lækkuðu verðið í síðustu viku eftir að Atlantsolía hóf að selja bensín. Olís hækkaði í gær verðið á 95 oktana bensíni á svonefndum ÓB stöðvum úr 92,50 krónum í 95,70 krónur og á díselolíu úr 35 krónum í 40,60 krónur. Skeljungur og Essó hækkuðu eldsneyti síðan í dag. Kostar lítri af 95 oktana bensíni 96,9 krónur og lítrinn af díselolíu kostar 41,8 krónur. Bensín á stöðvum Bensínorkunnar kostar áfram 92,40 krónur en bensínbirgðir Atlantsolíu eru þrotnar í bili.