Ólafur og Guðjón fengu Íslensku bókmenntaverðlaunin

Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni á …
Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum í dag. mbl.is/Jim Smart

Guðjón Friðriksson hlaut í dag Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir síðari bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar, og er þetta í þriðja skipti sem Guðjón hlýtur þessi verðlaun. Ólafur Gunnarsson, rithöfundur, fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Öxin og jörðin.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar og afhenti verðlaunin, sem nema 750 þúsund krónum og fylgdu þeim verðlaunagripir hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni.

Þriggja manna lokadómnefnd skipuð þeim Ingibjörgu Sólrunu Gísladóttur, Snorra Má Skúlasyni og Ragnari Arnalds, sem var formaður hennar, valdi verkin úr tíu bókum sem tilnefndar voru. Þetta var í 15. sinn sem Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent.

Þeir sem áður hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin eru Stefán Hörður Grímsson 1989, Hörður Ágústsson og Fríða Á. Sigurðardóttir 1990, Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson bæði 1991 og 1997, Þorsteinn frá Hamri og sameiginlega Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal og Sverrir Tómasson 1992, Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson 1993, Silja Aðalsteinsdóttir og Vigdís Grímsdóttir 1994, Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead 1995, Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason 1996, Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson 1998, Andri Snær Magnason og Páll Valsson 1999, Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson 2000, Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir 2001 og Ingibjörg Haraldsdóttir, Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert