Skarphéðinn: Fleiri stoðum skotið undir reksturinn með samruna

Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa. mbl.is/Ásdís

Skarphéðinn Berg Steinarsson, formaður stjórnar Norðurljósa, segir að samruni Norðurljósa, Frétta og Skífunnar hefði fyrst og fremst þá þýðingu í för með sér að fleiri stoðum er skotið undir reksturinn. „Við teljum að með stærra fyrirtæki þá sé líklegra að reksturinn til frambúðar verði með þeim hætti að einstakar einingar innan Norðurljósa geti staðið sig vel í samkeppninni og staðið við sínar skuldbindingar,“ sagði Skarphéðinn Berg. Móðurfélagið Norðurljós verður ekki með sjálfstæða starfsemi, en fyrirtækin þrjú verða í eigu þess.

Hann sagði að rekstur einstakra fyrirtækja innan samsteypunnar hafi stundum gengið vel og stundum illa. „Hluti af vandanum hefur verið sá að þessi fyrirtæki hafi ekki verið nægilega sterk. Við teljum að með þessum breytingum, að vera með fleiri fyrirtæki í rekstrinum, eigi fyrirtækin að geta gengið í samkeppninni við aðra fjölmiðla á markaðnum,“ sagði Skarphéðinn við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hann sagði að með slíkum samruna yrði auðvitað einhverjar breytingar, en engar uppsagnir væru fyrirhugaðar. „Almennt er að starfsmenn eiga ekki að finna fyrir neinum verulegum breytingum á sínum störfum innan einstakra eininga innan Norðurljósa." Hann sagði að með þessum breytingum yrðu tæplega 700 starfsmenn í vinnu hjá Norðurljósum, auk um 1300 blaðbera. Það eru því tæplega 2000 manns sem eru á launaskrá hjá fyrirtækinu.

Skarphéðinn sagði að hver eining yrði sjálfstæð, engin samruni væri fyrirhugaður hjá fréttastofunum, þær yrðu sjálfstæðar eftir sem áður. „Það verður engin breyting á því. Það er hluti af þessum strúktúr að vernda sjálfstæði einstakra fyrirtækja og einstakra miðla. Við teljum að það fyrirkomulag henti best þessum fyrirtækjum. Varðandi möguleika á einhverskonar samstarfi, mun það þróast með tímanum og á forsendum þeirra fyrirtækja sem mynda þessa samsteypu,“ sagði Skarphéðinn.

Hann sagði að samruni fyrirtækjanna hafi verið kynntur Samkeppnisstofnun lítillega, en það yrði gert enn frekar á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert