Beita á sektum fyrir að fleygja rusli

Enginn má fleygja rusli á almannafæri nema í þar til gerð ílát samkvæmt breytingum á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar, sem lagðar voru fram til fyrri umræðu í borgarstjórn í gær. Jafnframt mun lögreglan hafa skýra heimild til að vísa þeim mönnum í burtu af almannafæri sem vegna háttsemi sinnar valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði eða hættu.

Sigrún Elsa Smáradóttir, varaborgarfulltrúi R-listans, mælti fyrir breytingunum. Hún sagði einnig nefnt sérstaklega að bannað væri að valda óþrifum á almannafæri. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði þessar breytingar fela í sér framför. Fagnaði hann sérstaklega áttundu grein samþykktarinnar þar sem bannað er að fleygja rusli nema í þar til gerð ílát. "Ég held að þarna þurfum við að beita lögreglusamþykktinni betur en gert hefur verið," sagði Kjartan og fannst óþrif í borginni hafa aukist. Margir kasti sígarettum út um glugga á bílum og jafnvel tæmi úr öskubakka á þvottaplön. "Ég held að það þurfi að beita viðurlögum í ríkara mæli til að draga úr sóðaskap í borginni," sagði Kjartan og tímabært væri að beina því til lögreglunnar að hún efni til átaks gegn óþrifum. "Þá held ég að það dugi ekkert annað til en að beita sektum þegar lögreglan sér til manna fleygja rusli á almannafæri."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert