Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra gerði á lokuðum fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) í gær grein fyrir undirbúningi á samræmingarhlutverki Íslands á Kabúlflugvelli frá og með 1. júní n.k. Bandaríska blaðið The New York Times segir í dag að óvissa hafi ríkt um það vikum saman hvaða hersveitir ættu að taka við af þýskum hermönnum sem stýrt hafa flugvellinum. Eftir að flest NATO-ríkin báðust undan hafi Íslendingar loks fallist á að leggja til slökkvilið og borgaralega sérfræðinga.
Á fundi varnarmálaráðherranna í Brussel í gær var samþykkt að grípa til aðgerða til að auka hlutverk bandalagsins í uppbyggingu Afganistans með það fyrir augum að taka á endanum yfir stjórn öryggismála og uppbyggingar í landinu.
Bretar, Ítalar, Tyrkir og Norðmenn samþykktu að senda sveitir hermanna og óbreyttra borgara til Afganistans undir stjórn NATO til að aðstoða þarlend stjórnvöld við uppbyggingu og að halda uppi lögum og reglu. Hollendingar, Rúmenar og Litháar lýstu einnig áhuga á að taka þátt í verkefninu, að sögn New York Times.
Nú eru átta sveitir í Afganistan undir stjórn Bandaríkjamanna, Breta, Nýsjálendinga og Þjóðverja en Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vill að allt að 10 sveitir til viðbótar verði sendar til landsins áður en kosningar verða þar í sumar.
Nú þegar eru um 5500 friðargæsluliðar á vegum NATO í Kabul og nágrenni en þær eru aðskildar frá um 13 þúsund manna herliði Bandaríkjamanna sem einbeita sér að því að leita uppi al-Qaedaliða og fyrrum talibana. Herstjórnar og sendimenn hafa hins vegar lýst áhyggjum af því að frá því NATO ákvað í raun í október að taka að sér aukna friðargæslu í Afganistan hafi því ekki verið fylgt eftir í verki. New York Times segir að óvissa hafi ríkt um það vikum saman hvaða hersveitir ættu að taka við af þýskum hermönnum sem stýrt hafa Kabul-flugvelli. Eftir að flest NATO-ríkin báðust undan hafi Íslendingar loks fallist á að leggja til slökkvilið og borgaralega sérfræðinga. Blaðið hefur eftir embættismanni innan NATO að enn sé eftir að útvega nokkra flugumferðarstjóra.
Íslensk stjórnvöld ákváðu í október að bjóða Atlantshafsbandalaginu að senda tíu manna hóp íslenskra sérfræðinga til að taka að sér leiðandi samræmingarhlutverk á flugvellinum í Kabúl.