Þrettán stiga frost inni í sjúkrabíl sem fastur er í skafli

Mikil snjóþyngsli eru á Egilsstöðum og nágrenni.
Mikil snjóþyngsli eru á Egilsstöðum og nágrenni. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Þrjátíu manns hefur verið bjargað úr bílum sínum í nótt og í morgun í nágrenni Egilsstaða, að sögn Stefáns Guðmundssonar, fulltrúa í svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi. Þá er enn vitað um 19 manns sem eru einhvers staðar fastir í bílum í Hjaltastaða- og Eiðaþinghá. Ekki er þó vitað hvar tveir bílar eru niður komnir. Ennfremur er verið að gera út leiðangur að Kárahnjúkum en í nágrenni þeirra er sjúkrabíll fastur í skafli og hefur verið frá því í gærkvöldi.

Þrettán stiga frost er í bílnum og er sjúklingur inni í honum. Hann er staddur 50-60 km frá Egilsstöðum. Mjög blint er á svæðinu og ófærð, skyggni nánast ekkert. Ófærð er einnig í byggð.

Þá er vitað um 24 menn á Kárahnjúkum sem hafa ekki skilað sér í hús. Tveir þeirra eru í vinnuvélum en hinir ýmist í vinnuskúrum eða í bílum.

Þá eru um 100 manns enn í samkomuhúsinu Hjaltalundi en þar var haldið þorrablót í gærkvöldi.

Hitaveitan á Egilsstöðum fór út í nótt og fór bíll björgunarsveitarinnar með hitaveitustjórann út að Urriðavatni svo unnt væri að laga bilunina. Þangað er innan við 10 km leið og tók það á fjórðu klst. að komast þangað á snjóbíl í nótt. Unnt var að gera við bilunina. Þá var rafmagnslaust í Hjaltalundi á um tveggja klukkustunda tímabili í nótt en rafmagn er komið á að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert