Unglingar sem stunda reglulegt tónlistarnám ólíklegri til að neyta vímuefna

Unglingar sem stunda reglulegt tónlistarnám eru ólíklegri til að reykja og neyta áfengis eða annarra vímuefna. Þá er ólíklegra að þeim sem stunda reglulegt tónlistarnám leiðist skólanámið. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna sem Rannsóknir og greining ehf. vann að tilstuðlan Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar um gildi tónlistarnáms fyrir íslensk ungmenni.

Gögn rannsóknarinnar byggjast á könnuninni Ungt fólk 2000 sem gerð var meðal nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla á landinu. Svör 6.346 nemenda, eða 88% nemenda sem voru í 9. og 10.bekk vorið 2000, liggja til grundvallar.

Rannsakendur, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, skiptu þýðinu í tvo hópa. Þá sem stunda reglulegt tónlistarnám, þ.e. einu sinni í viku eða oftar (1.032 nemendur) og þá sem ekki stunda tónlistarnám svo oft (4.986 nemendur). Hóparnir tveir voru svo bornir saman m.t.t. neyslu vímuefna og reykinga annars vegar og námsárangurs og viðhorfs til skóla hins vegar.

Stelpur sem ekki stunda reglulegt tónlistarnám eru þrefalt líklegri til að reykja daglega en hinar. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar reykja 17% stúlkna sem ekki stunda reglulegt tónlistarnám en einungis 5% hinna. Hins vegar segjast 12% stráka reykja daglega í þeim hópi sem ekki stundar reglulegt tónlistarnám en 7% hinna. Unglingar sem stunda reglulegt tónlistarnám virðast ólíklegri en þeir sem ekki stunda slíkt nám til að hafa orðið ölvaðir eða notað hass. Stelpur sem ekki stunda reglulegt tónlistarnám eru tvöfalt líklegri til að hafa orðið drukknar sl. 30 daga. Alls kváðust 30% þeirra hafa orðið drukknar sl. 30 daga. Hjá þeim hópi stelpna sem stundar reglulegt tónlistarnám sögðust 16% hafa orðið drukknar sl. 30 daga.

Hlutfall þeirra sem hafa prófað hass er lægra meðal þeirra sem stunda reglulegt tónlistarnám en hinna. Alls hafa 3% stelpna sem stunda slíkt nám prófað hass en 8% hinna. Tölurnar fyrir strákana eru 5% og 11%. Höfundar skýrslunnar taka fram að mikilvægt sé að kanna hvort tengsl tónlistarnáms við frávikshegðun unglinga haldist marktæk þegar tekið hefur verið tillit til annarra þátta í félagslegu umhverfi þeirra, svo sem menntunar foreldra, tengsl við foreldra og ástundun skipulags félagsstarfs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert