Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, mun í dag mæla fyrir umdeildu frumvarpi til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Um er að ræða endurskoðun laga frá 1974 sem sett voru í kjölfar samkomulags um að Laxárdalur yrði ekki gerður að uppistöðulóni fyrir Laxárvirkjun. Málið er afar umdeilt sökum þess að með frumvarpinu fylgir sérstakt bráðabirgðaákvæði III þar sem segir að Umhverfisstofnun geti heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.
Segir í fréttatilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands að þar með rjúfi ráðherra þau grið sem gerð voru með samningi árið 1973 um verndun Laxár og Mývatns og löghelgaður var 1974. Segir jafnframt að framganga umhverfisráðherra sé óskiljanleg í ljósi þess að Laxár- og Mývatnssvæðið er verndað samkvæmt Ramsarsamningnum um verndun votlendis.
„Samkvæmt þeim samningi hefur Ísland skuldbundið sig til að gera verndaráætlun fyrir svæðið og það gegnir furðu að umhverfisráðherra skuli tönnlast á nauðsyn umhverfismats á vegum Landsvirkjunar áður en nokkur verndaráætlun hefur verið gerð fyrir svæðið á vegum umhverfisráðuneytisins.
Slík verndaráætlun á að hafa forgang en ekki gerð matsskýrslu Landsvirkjunar því matsskýrsla er fyrsta skref til að ráðast í framkvæmd. Umhverfisráðherra væri mestur sómi af að draga bráðabirgaákvæði III til baka og hefja gerð verndaráætlunar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands,“ segir m.a. í tilkynningu Náttúruverndarsamtaka Íslands.