Íbúar þorpsins Kapenguria í Kenýa gripu til sinna ráða þegar þeim þótti óþefurinn af bónda í þorpinu orðinn of megn, en fullyrt var að bóndinn hefði ekki farið í bað í áratug að minnsta kosti.
Á fréttavef BBC segir að fjórir vöðvastæltir menn hafi gripið John Kasokong og bundið hann og síðan gefið honum þrifabað. Margir þorpsbúar eru sagðir hafa fylgst með aðförunum, þar á meðal bæjarstjórinn.
Haft er eftir Rogers Kimwei, nágranna bóndans, að þeir hafi ekki lengur þolað við vegna óþefsins sem lagði af Kasokong og því orðið að grípa til þessara úrræða.