Mikill misskilningur að forsetaembættið sé valdalaust

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í dag að hann …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í dag að hann hyggist bjóða sækjast eftir endurkjöri í embætti forseta. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að sækjast eftir endurkjöri sem forseti Íslands á því kjörtímabili sem hefst 1. ágúst næstkomandi, að því er hann tilkynnti á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag. Á fundinum sagði Ólafur Ragnar meðal annars að hann hefði heyrt því fleygt að undanförnu að forsetaembættið væri valdalaust, en þetta sagði hann mikinn misskilning. „Það þarf ekki annað en að lesa stjórnarskrána til þess að sjá að forsetanum er falið mikilvægt vald sem þjóðin kýs að sé í hans höndum og þeir sem mótuðu lýðveldisstjórnarskrána á sínum tíma ákváðu vitandi vits að koma fyrir á þann veg að sá einstaklingur sem þjóðin veldi beint væri með það vald í sínum höndum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Sagðist Ólafur Ragnar telja að forsetakosningarnar nú framundan veittu kærkomið tækifæri til að ræða um forsetaembættið. Sagðist hann hafa tekið eftir því að töluverð umræða hefði verið um forsetaembættið og stöðu þess í stjórnskipulaginu. „Ég tek því fagnandi að þessi umræða hafi hafist og mun reyna að taka virkan þátt í henni á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Hann bætti því við að kannski hefði hann gert of lítið af því á undanförnum árum að taka þátt í slíkum umræðum. Hefðin hafi verið sú að forsetinn héldi sig til hlés og svaraði ekki gagnrýni sem að honum hefði beinst. „Ég er ekki viss um að það sé æskileg skipan í því fjölbreytta þjóðfélagi sem við búum í í dag og með tilliti með þeirrar fjölmiðlunar sem er orðinn eðlilegur og að mörgu leyti ánægjulegur þáttur í okkar nútímaþjóðfélagi.“

Sagðist Ólafur hafa hugsað sér, næði hann kjöri, að skapa greiðari aðgang að umræðu við forsetann á komandi árum. Margir kollegar hans í löndum þar sem forsetinn hefði svipaða stjórnskipulega stöðu á á Íslandi, hefðu kosið að fara inn á þessar brautir. „Kannski vegna þess að þeir sjá að það er nauðsynlegur þáttur í því fjölbreytta lýðræðissamfélagi sem við búum við að forsetinn taki ekki þegjandi öllu því sem sagt er um hann og stjórn hans og embættisverk á opinberum vettvangi heldur hiki ekki við að taka þátt í þeim samræðum eins og eðlilegt er,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar sagðist jafnframt hafa heyrt einstaka menn í fjölmiðlum gagnrýna sig fyrir að vera ekki löngu búinn að upplýsa um ætlun hans varðandi forsetakosningarnar. „Mér finnst því rétt að það komi fram að ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar að sitjandi forseti ætti að gefa fólkinu í landinu svigrúm til þess að vega og meta sjálft hvað það teldi rétt. Það væri ekki æskilegt að sitjandi forseti tilkynnti með löngum fyrirvara um framboð sitt og stillit þannig þjóðinni upp við vegg eða nánast gæfi það til kynna að hann teldi sjálfsagt mál að verða endurkjörinn.“

Ekki sjálfgefin ákvörðun

Á fundinum sagði Ólafur Ragnar einnig að ákvörðunin um að bjóða sig fram hefði ekki verið sjálfgefin og að baki henni lægi töluverð umhugsun og mat, bæði á reynslu síðustu ára og eins því sem framundan væri. „Að vel athuguðu máli er það niðurstaða mín að bjóða fram krafta mína til þess að gegna þessu embætti fjögur ár í viðbót,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar sagðist meta mikils það traust sem þjóðin hefði sýnt honum í forsetakosningunum 1996 og 2000 og bætti því að embættið sé hið eina sem þjóðin velur beint í.

Ólafur Ragnar sagði að þau síðustu átta ár sem hann hefur setið í embætti forseta hafi verið mjög lærdómsrík „Þó að það hljómi kannski sérkennilega þá held ég að rétt sé að segja eins og er að ég held að ég sé á margan hátt betur undir það búinn nú að gegna þessum verkefnum en ég var í upphafi þegar ég var kosinn forseti Íslands, því að sú reynsla sem ég hef fengið á þessum árum hefur verið mér mjög dýrmætt veganesti,“ sagði Ólafur Ragnar einnig.

Ólafur Ragnar sagðist telja að forsetaembættið væri eitt af mikilvægustu tækjum Íslendinga í breyttum heimi. Ekki aðeins væri samkeppni milli fyrirtækja vaxandi og í efnahags- og atvinnulífi í veröldinni, heldur hefði samkeppni meðal þjóða einnig vaxið mikið. „Ég er sannfærður um að forsetaembættið er eitt af mikilvægustu verkfærunum sem við Íslendingar eigum til þess að treysta stöðu okkar og efla hana og styrkja í upphafi nýrrar aldar.“

Áhersla á fjóra meginþætti

Ólafur Ragnar sagði ef þjóðin kysi að fela honum forsetaembættið á nýjan leik í sumar myndi hann reyna að kappkosta að sinna því í þeim anda sem hann hefði gert á undanförnum árum, en jafnframt leggja áherslu á nokkra meginþætti. Þar nefndi Ólafur Ragnar í fyrsta lagi mikilvægi þess að forsetinn tæki þátt í samræðum þjóðarinnar um framtíð Íslendinga og væri ekki fjarlægur í þeirri glímu.

Í öðru lagi gegni forsetinn mikilvægu hlutverki í því að styrkja margvíslega starfsemi í landinu, svo sem í byggðalögum og ýmiss konar félagastarfsemi. Í þriðja lagi sagði Ólafur að það væri í vaxandi mæli í verkahring forsetans að vinna að því að treysta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, greiða götu Íslendinga á sviði menningar, viðskipta og vísinda og tryggja að sá efniviður sem í þjóðinni býr fengi að njóta sín, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Í fjórða lagi nefndi Ólafur að hann teldi ríkan þátt í verkahring forsetans að efla tengsl við forystumenn annarra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert