Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri

Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að sækjast eftir endurkjöri sem forseti Íslands, að því er hann tilkynnti á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag. Ólafur Ragnar sagði að þessi ákvörðun hefði þó ekki verið sjálfgefin og að baki henni lægi talsverð umhugsun.

Ólafur Ragnar sagðist meta mikils það traust sem þjóðin hefði sýnt honum í forsetakosningunum 1996 og 2000 og bætti því að embættið sé hið eina sem þjóðin velur beint í.

Að baki ákvörðuninni sagði Ólafur Ragnar liggja mat á reynslu síðustu ára og því sem framundan væri. Boðaði hann aukna þátttöku forsetans í almennri þjóðfélagsumræðu og sagði mikilvægt að hann tæki virkan þátt í umræðu um stöðu og framtíð þjóðarinnar. Þá væri ekki nema eðlilegt að forsetinn svaraði fyrir sig þegar ganrýni beindist að honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert