Á háflóðinu í kvöld verður reynt að draga Baldvin Þorsteinsson EA af strandstað í Meðallandsfjöru. Um klukkan sex í kvöld var búið að ganga frá tengingu aðaldráttartaugarinnar úr norska dráttarskipinu í stefni skipsins, að sögn blaðamanns Morgunblaðsins á strandstað. Reynt verður að snúa skipinu með því að festa vír í skutinn úr land og þar sjá jarðýtur um að snúa skipinu. Þá verður loðnunni, um 1.000 tonnum, dælt úr skipinu áður en dráttur hefst upp úr klukkan ellefu í kvöld.
Undirbúningur gekk mjög vel í dag og var þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, notuð við að koma tengingu á milli skipanna. Fyrsta verkefni þyrlunnar var að flytja fjóra skipverja um borð í Baldvin. Að því loknu var hafist handa við að ferja tildráttartaug frá landi yfir í dráttarskipið Normand Mariner. Það gekk vel eins og í fyrra skiptið og tók alls 30 mínútur. Þar næst voru þrír skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson.
Norski dráttarbáturinn Normand Mariner hefur aldrei verið eins nálægt ströndu og það er nú, en fjarlægðin frá ströndu er einungis ein sjómíla.
Veður á strandstað er gott, gola og lítið brim.