Fjölmiðlafrumvarp samþykkt í þingflokkum

Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu frumvarp um eignarhald á fjölmiðla á fundum …
Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu frumvarp um eignarhald á fjölmiðla á fundum sínum í dag. Á myndinni sjást Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra.

Þingflokkar beggja stjórnarflokkanna samþykktu fjölmiðlafrumvarpið svonefnda á fundum sínum í dag og verður það lagt fram á Alþingi í kjölfarið. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið fyrir sitt leyti í gær eftir að formenn stjórnarflokkanna höfðu náð samkomulagi um málið á laugardag. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag, að við gerð frumvarpsins hefði verið horft til þeirra athugasemda, sem nefnd sem fjallaði um eignarhald á fjölmiðlum, setti fram og lögfræðingar hefðu farið yfir málið, og því væri ekki ástæða til að ætla annað en að frumvarpið stæðist íslenska stjórnskipun í hvívetna.

Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vísaði í fyrirspurn til umfjöllunar í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar, um afturvirkni laga um eignarhald á fjölmiðlum. Sagðist Bryndís telja mjög mikilvægt að ríkisstjórnin gangi úr skugga um að frumvarpið stæðist stjórnarskrá og sagði að það nægði sér ekki, sem Davíð hefði sagt í fjölmiðlum í gær, að sú leið væri að sjálfsögðu opin að menn gætu leitað réttar síns fyrir dómstólum.

Davíð sagði að horft hefði verið til allra þeirra sjónarmiða, sem komu fram í nefndinni, við samningu frumvarpsins og náið samráð haft við lögfræðinga, ekki síst þá lögfræðinga sem skipað höfðu sæti í nefndinni.

Fram kom einnig hjá Davíð á þingi í dag, að búast mætti við að þingið starfaði lengur en til 7. maí, eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert